Ók sama bílnum 1,6 milljón km á 17 árum

http://www.fib.is/myndir/Million-Mile-Saab.jpg
Jay Spenchian forstjóri Saab í Bandaríkjunum th. heilsar Peter Gilbert yfir toppinn á gamla Saabinum.

Englendingur, Peter Gilbert að nafni, hreifst svo mjög af sænska rallkappanum Erik Carlsson sem sigraði í Monte Carlo rallinu árið 1963 á Saab 96 með afllítilli þriggja strokka tvígengisvél að hans fyrsti bíll varð samskonar og sá sem Erik Carlsson var svo sigursæll á í fjöldamargri rallkeppni á árunum 1955-1970.

Peter Gilbert eignaðist sinn fyrsta Saab árið 1966 og hefur æ síðan átt Saab bíla. Hann fluttist til Bandaríkjanna og eignaðist þar sinn núverandi bíl sem er grár Saab 900 árgerð 1989 sem hann keypti nýjan á því herrans ári. Á þeim 17 árum sem Peter hefur átt bílinn hefur hann ekið honum milljón mílur eða 1,6 milljón kílómetra.

Forstjóri Saab í Bandaríkjunum hefur heiðrað Peter fyrir þetta enda hefur Peter ekið bílnum að meðaltali rúmlega 94 þúsund kílómetra á hverju ári síðan hann eignaðist hann og það er akstur sem hlýtur að reyna talsvert á bæði bíl og ökumann.

Bíllinn er allur upprunalegur og óupptekinn, en eigandinn segir að galdurinn við að kreista þennan ótrúlega kílómetrafjölda út úr bíl sé sá að fylgjast vel með honum og endurnýja reglulega ýmsa slithluti í stað þess að bíða eftir því að þeir bili, smyrja og skipta reglulega og oft um allar olíur og síur.

Peter segir að margt hafi á dagana drifið hjá manni og bíl á þessum langa og mikla samvistatíma, bæði skemmtilegt og miður skemmtilegt. Nýjasta atvikið af síðarnefndu tegundinni hafi verið árekstur við álftaflokk en af þeirri fyrrnefndu nefnir hann þegar honum tókst að koma gamla Saabinum á 220 km hraða á hraðbraut í Wisconsin.

En nú er útlit fyrir að löngum samvistum Peters og gamla Saabsins ljúki senn því að bílasafn í nágrenni við heimili hans hefur falast eftir bílnum og lofað eigandanum því að hann megi heimsækja sinn gamla félaga eins oft og hann lystir.