-Okkur urðu á stór mistök

Volkswagen AG hefur hafið mikla auglýsingaherferð. Heilsíðuauglýsingar birtust í helstu fjölmiðlum Evrópu í gær, mánudag og í morgun (13. okt.) birtist íslensk útgáfa hennar  á bls. 3 í Fréttablaðinu. Textinn er svohljóðandi:

„Það sem skiptir okkur mestu máli hefur orðið fyrir skaða; traust ykkar.

Okkur urðu á stór mistök, við brugðumst trausti ykkar.

Í 60 ár hafið þið treyst á okkur. Þið höfðuð trú á okkur í hvert sinn sem þið keyptuð af okkur bíl.

Samt brugðumst við ykkur.

Okkur er ljóst að nú verðum við að láta verkin tala sem aldrei fyrr. Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að leysa úr vanda allra sem hafa orðið fyrir skaða.

Fyrsta skrefið var stigið hér: volkswagen.is/is/upplysingar.html

Og við unnum okkur ekki hvíldar fyrr en við höfum öðlast traust ykkar á ný.“

Eftir að „Dieselgate“ málið komst í hámæli fyrir nokkrum vikum hefur það haft mjög slæmar afleiðingar fyrir Volkswagen AG. Traustið er hrunið á öllum vígstöðvum og nýr forstjóri og stjórn Volkswagen róa lífróður til að reyna að lágmarka sem mest þann skaða sem þegar er orðinn og fyrirsjáanlegur er. Hætt hefur verið við fyrirhugaðar fjárfestingar upp á einn milljarð dollara á ári sem m.a. fólust í  hönnun og þróun nýrra bílagerða. Meðal þess er ný, einföld og ódýr undirtegund VW sem átti að keppa á markaði við hið rúmenska undirmerki Renault; Þá hefur markaðsvirði Volkswagen AG hrunið um þriðjung.

Heimildir Reuters fréttastofunnar herma tekjuhrun og taprekstur sé fyrirsjáanlegt í rekstrinum, sérstaklega þó innan Volkswagen vörumerkisins sem hefur bæði verið söluhæst og ábatasamast innan VW samsteypunnar hingað til. Þar vegur þungt gríðarlegur kostnaður við innköllun þeirra 11 milljón bíla sem eru með vandræðahugbúnaðinum. Áætlaður kostnaður vegna innköllunarinnar, sekta, skaðabóta og lagfæringa er talinn verða um 35 milljarðar evra.