Okrað á öryggi!

Dekkja innflytjendur á Íslandi skulda neytendum skýringu á þessum mikla verðmun
Dekkja innflytjendur á Íslandi skulda neytendum skýringu á þessum mikla verðmun

Gríðarlegur munur er á verði vetrarhjólbarða á Norðurlöndunum og Íslandi – Íslenskum neytendum í óhag. Algengur verðmunur á dekki af hinni algengu stærð 205/55 R16 reyndist vera frá 118% upp í 165% í samanburðarkönnun sem FÍB hefur gert.  Ef settur er 15% afsláttur á íslensku verðin þá er verðmunurinn frá 85% upp í 125%. Hjólbarðar framleiddir í Evrópu bera ekki toll á Íslandi en á dekk frá öðrum heimshornum leggst 10% tollur.  Önnur gjöld á hjólbarða er úrvinnslugjald sem er 40 krónur á hvert kg af þyngd dekksins. Á Norðurlöndunum eru gjöldin ekki minni og flutningskostnaður réttlætir ekki þennan ofur verðmun.  Spurningin er hvort markaðurinn hér heima sé óeðlilega samstilltur varðandi verðlagningu.  Dekkja innflytjendur á Íslandi skulda neytendum skýringu á þessum mikla verðmun.

FÍB birtir í nýlega útkomnu tölublaði FÍB blaðsins árlega vetrarhjólbarðakönnun sína. Hjólbarðarnir í henni eru sérstaklega gerðir til að mæta vetraraðstæðum norðlægra slóða og flestir barðarnir fást á Íslandi. Allir vetrarhjólbarðarnir í könnuninni eru af stærðinni 205/55 R16 sem er algeng undir fólksbílum. Kannað var verð þeirra hjá innflytjendum hér á landi. Sérstaklega var beðið um svonefnt listaverð án afslátta. Beðið var um verð miðað við það að keyptur væri dekkjagangur eða fjögur dekk.

FÍB hefur nú kannað hvað sjö tegundir sömu ónegldu hjólbarða og fram koma í gæðakönnun FÍB blaðsins kosta í Netverslunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Almennt reyndist verðið vera lægst í Svíþjóð. Mestur prósentuhlutfallsmunur á verði án afsláttar milli Svíþjóðar og Íslands reyndist vera á Pirelli Ice Zero FR eða 165%.

Algengur afsláttur eins og t.d. FÍB afsláttur o.fl. er 15%. Væri hann tekinn inn í verðið á Pirelli dekkinu var munurinn 125%. Minnstur munur miðað við þessar forsendur reyndist 85% á Hankook Winter i*cept IZ2.