Ökumannslausir bílar

Á morgun, þriðjudaginn 5. Nóvember verður ökumannslaus bíll á ferð í umferð í Danmörku í fyrsta sinn. Ökuleiðin verður að sönnu ekki löng – aðeins tveir kílómetrar, frá Koldingkastala að hóteli í bænum Kolding þar sem fram fer ráðstefna um landmælingar og kortagerð.

Því er spáð að bílar verði orðnir meira og minna sjálfstýrðir eftir 15-20 ár. Á ráðstefnunni í Kolding er einmitt verið að fjalla um það og nauðsynlega kortagrunna og nákvæm leiðsögukerfi. Prófanir á sjálfstýrðum bílum hafa farið fram að undanförnu í Bandaríkjunum og Þýskalandi, m.a. á vegum Google og allmargra bílaframleiðenda sem hyggjast bjóða upp á sjálfkeyrandi bíla upp úr árinu 2020. Prófanir þessar hafa gengið ágætlega og áfallalaust, en til þrutavara hafa yfirleitt verið hafðar manneskjur í bílunum til að grípa inn í aksturinn ef rafeindatæknin skyldi bregðast. Til þess hefur þó ekki komið.

Ökumannslausi bíllinn í Danmörku er af gerðinni Hyundai Sonata en nákvæmur leiðsögubúnaður, myndavélar og aksturskerfi hefur verið sett í bílinn hjá háskóla í Parma á Ítalíu. Bíllinn ræsir sig sjálfur og hagar akstrinum í einu og öllu eftir aðstæðum. Hann heldur réttri fjarlægð milli bíla og lagar ökuhraðann eftir umferð, reglum um hámarkshraða og öðrum aðstæðum.