Ökumenn eru hvattir til að gefa sér rýmri tíma

Framkvæmdir á Miklubraut við Klambratún hefjast í dag, mánudag, en þá verður akreinum til vesturs fækkað tímabundið frá Lönguhlíð að Rauðarárstíg.  Þar sem umferðarþungi inn í miðborgina er mestur á morgnana má gera ráð fyrir töfum á í  morgunumferðinni á næstunni.

Ökumenn eru hvattir til að gefa sér rýmri tíma en venjulega, sem og að sýna tillitssemi og aðgát við framkvæmdasvæðið.

Verkið felst í að bæta forgang strætó  og almennt umferðaröryggi .  Framkvæmdir hefjast að norðanverðu eða Klambratúnsmegin, en þar verða aðskildir göngu- og hjólastígar, auk þess sem biðstöðvar strætó verða endurgerðar og umhverfi við akbrautina gert vistlegra við lágan vegg sem kemur meðfram akbraut.

Forgangsrein strætó til austurs  verður sunnan Miklubrautar meðfram húsagötu og biðstöð þar verður einnig endurnýjað.  Akrein frá Reykjahlíð beint út á Miklubraut verður aflögð og til að gera vistlegri stemningu og draga úr umferðarhraða verða gatnamót Reykjahlíðar og húsagötu við Miklubraut hellulögð í sama plani og aðliggjandi gangstéttar. Milli húsagötu og Miklubrautar kemur hljóðdempandi steyptur veggur.

Á öllu framkvæmdasvæðinu verður götulýsing endurbætt eftir þörfum.  Verkið er unnið í samvinnu við Vegagerðina og Veitur. Heildarkostnaður við framkvæmdina er um 350 milljónir króna. Hlutur Reykjavíkurborgar er um 170 milljónir.

Akreinum fækkað tímabundið á framkvæmdatíma

Á verktíma má gera ráð fyrir töfum á umferð vegna fækkunar akreina, en stefnt er að því að verkþáttum sem kalla á takmarkanir á umferð verði lokið í ágúst.  Verkinu í heild á að ljúka í október.

Eins og áður segir verður lokað fyrir akrein til vesturs á mánudag og verða frekari lokanir kynntar sérstaklega.

Einnig þarf tímabundið að færa biðstöðvar Strætó og þannig fellur biðstöð við Klambratún út á mánudag og verður bráðabirgðastöð sett upp við gatnamót Lönguhlíðar.