Ökumenn frá 21 þjóðlandi kærðir fyrir hraðakstur

70 ökumenn frá 21 landi voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Hraðast ók íslenskur karlmaður fæddur 1975 en bifreið hans mældist á 157 km/klst hraða á Suðurlandsvegi til móts við Oddgeirshóla.

Annars er listinn yfir ríkisfang þeirra sem óku of hratt langur eða samtals frá 21 þjóðríki. N.t.t. svona: Litháen, Kína, Ítalía, Ísland, Rúmenía, Malasía, Bandaríkin, Grikkland, Argentína, Þýskaland, Pólland, Sviss, Bretland, Danmörk, Indland, Kólumbía, Lettland, Spánn, Taívan, Kanada og Albanía.

Afskipti voru höfð af ökumönnum fjögurra ökutækja í vikunni vegna ófullnægjandi frágangs á farmi.   Einn var að flytja túnþökur í rúllum. Brík var til varnar framskriði en ekkert studdi við til hliðanna. Annar var með þrjár lausar heyrúllur á kerru. Þriðji flutti malarfarm á palli án þess að hafa vör til að loka honum og sáldraðist möl yfir veginn.   Tilkynnt var um þann fjórða en ökumaður bifreiðar sem hann mætti kvaðst hafa fengið grjót á bifreið sína þó svo tjón væri óverulegt og íllmögulegt að sýna fram á það þar sem bíllinn væri þegar með sína sögu um grjótbarning. Vörubifreiðin var stöðvuð á Vesturlandsvegi og rætt við ökumann hennar.