Ökumenn og vegfarendur virði hraðatakmarkanir

Starfsmenn verktaka og Vegagerðarinnar sem vinna nú að viðhaldi á vegakerfinu eru oft í mikilli hættu við störf sín og jafnvel lífshættu þar sem ökumenn virða ekki hraðatakmarkanir  á vinnusvæðum. Nú þegar aukinn kraftur er settur í viðhald vega og umferð hefur aukist gríðarlega þá eykst hættan á alvarlegum slysum að sama skapi.

Því er enn mikilvægara en áður að ökumenn og vegfarendur virði hraðatakmarkanir og aðrar takmarkanir sem settar eru í umferðinni til að sinna megi því viðhaldi sem algjörlega nauðsynlegt er að sinna.

Mörg tilvik hafa orðið nú í sumar þar sem legið hefur við slysum og hefur Vegagerðin og verktakar sem vinna við viðhald og aðrar framkvæmdir stórar áhyggjur af ástandinu sem virðist frekar fara versnandi en hitt.

Sérstaklega veldur það áhyggjum að í auknum mæli virða atvinnubílstjórar ekki heldur merkingar og tilmæli um að draga úr hraða. Það segir sig sjálft að það þarf ekki að spyrja að því hvað gerist ef eitthvað fer úrskeiðis hjá tuga tonna þungum vörubíl á vinnusvæði þar sem starfsmenn hafa ekki annað sér til varnar en hjálm og stáltáarskó.

Ökumen eru hvattir til að sýna varúð við vinnusvæði og virða merkingar. Hraði á höfuðborgarsvæðinu t.d. er tekinn niður úr 60 eða 80 niður í 50 eða jafnvel 30 á stuttum köflum. Það segir sig sjálft að það er ekki mikið mál fyrir ökumann á 500 m kafla að aka á 50 í stað 80 eða 30 í stað 50, það mun ekki skipta sköpum hvort menn eru hálfri mínútunni lengur á leiðinni en vanalega.

Vegagerðin óskar eftir góðri samvinnu við alla þá sem eru á ferðinni, að fólk sýni tillitssemi og minnist þess að alvarlegt slys verður ekki aftur tekið en sekúndu eða mínútu flýting skiptir litlu.