Ökunám verður stafrænt frá upphafi til enda

Ákveðið hefur verið að fyrir árslok verði umgjörð fyrir almennt ökunám orðin stafræn frá upphafi til enda. Tekur það til umsókna, ökunámsbóka, upplýsingagáttar fyrir nemendur og ökukennara, ökuskóla, prófa og útgáfu ökuskírteina. Markmiðið er að einfalda ökunámsferlið, fækka snertiflötum milli stofnana og bæta til muna þjónustu við nemendur og ökukennara. Gert er ráð fyrir því að annað ökunám og ökunám til aukinna ökuréttinda fylgi síðan í kjölfarið.

„Ég hef lagt áherslu á að efla stafræna þjónustu og nýsköpun. Nú ætlum við að bæta þjónustu við nokkur þúsund ökunema á hverju ári. Ökunámið er vandað, námskröfur skýrar og nemendur fúsir að undirbúa sig vel fyrir akstur á ýmsum stigum. Það er þó ljóst að mikil tækifæri eru fólgin í að einfalda umgjörð ökunáms og bæta rafræna stjórnsýslu. Það er tímabært að ökunámið verði markvissara og umhverfisvænna í takt við nútímatækni. Við viljum kveðja prentuðu ökunámsbækurnar, auðvelda fólki að fara í gegnum ökunámið og gera próf rafræn, að undanskildu gamla góða verklega prófinu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á vef ráðuneytisins.

Samgöngustofa ber ábyrgð á ökunámi og stýrir verkefninu í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og sýslumannsembætti, sem gefa út ökuskírteini í umboði ríkislögreglustjóra. Verkefnastofa um stafrænt Ísland mun hafa umsjón með að þróa tæknilausnir til að stafrænt ökunámsferli verði að veruleika. Stafrænt Ísland vinnur að verkefnum þvert á stofnanir ríkis og sveitarfélaga til að stórefla stafræna þjónustu hins opinbera. 

„Samvinna um stafrænar lausnir felur í sér tækifæri til að stórefla opinbera þjónustu við mjög marga notendur. Við sáum að ferlið frá umsókn um ökunám til útgáfu ökuskírteinis mætti einfalda til muna en útfærslan myndi krefjast góðrar samvinnu ráðuneyta og stofnana. Hugmyndinni um stafrænt ökunámsferli hefur verið vel tekið hjá öllum aðilum, sem er afar ánægjulegt. Auk tæknilegra lausna felur verkefnið í sér samráð við marga, ekki síst mikilvæga hagaðila eins og ökuskóla og ökukennara og að sjálfsögðu fulltrúa stærsta hópsins, sem eru ökunemar. Við sjáum fyrir okkur að verkefnið um stafrænt ökunámsferli verði til hagsbóta fyrir alla notendur,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.

Unnið í þremur áföngum

Verkefnið verður unnið í nokkrum áföngum sem fylgja þeirri tímaröð sem ökunemar fara í gegnum ökunámsferlið. Í fyrsta áfanga verður því unnið að nýju rafrænu umsóknaferli. Vinna við það er hafin hjá Samgöngustofu, sýslumannsembættunum og Stafrænu Íslandi. 

Í öðrum áfanga verður rafræn ökunámsbók og tenging hennar við ökunema, ökukennara, ökuskóla, ökugerða og alla þá aðila sem tengjast þessum miðpunkti ökunámsins.

Þriðji og síðasti áfanginn felst í að gera ferlið í kringum próftöku og útgáfu skírteina stafrænt ásamt allri umsýslu í kringum það.