Ökuskólinn í Limlestingabæ

http://www.fib.is/myndir/Limlest.jpg


Ökuskólinn í Limlestingabæ eða Kvæsterød køreskole er hluti af fræðslu- og skemmtigarðinum Experimentarium í Kaupmannahöfn. Ökuskólinn verður opnaður á föstudaginn 1. febrúar og þá hefst óhefðbundin ökukennsla fyrir stálpuð börn og unglinga sem er ólík hefðbundinni ökukennslu. Í bænum er ekki nokkur sála á lífi – allir hafa farist í umferðarslysum.

Í þessum ökuskóla verður hægt að finna það að nokkru á eigin skrokki sem varð íbúum Limlestingabæjar að aldurtila án þess þó að leggja eigið líf undir. Íbúarnir í bænum töldu sig alla vera frábæra bílstjóra, svo frábæra að þeir þurftu ekkert að vera að spenna öryggisbeltin, fara eftir bjánalegum reglum um umferðarhraða né öðrum umferðarreglum og gátu keyrt fullir eins og ekkert væri. Þeir héldu að þeir gætu ekið og talað í síma, reykt, drukkið og étið undir stýri og stillt hljómtækin og skipt um geisladisk í spilaranum – allt á sama tíma.http://www.fib.is/myndir/Limlest2.jpg

Námsefnið er miðað við krakka í áttunda bekk grunnskóla og upp úr, það er að segja börn og unglinga sem ýmist eru að nálgast bílprófsaldur eða hafa þegar náð honum. Í skólanum er fjölbreyttur tæknibúnaður, m.a. ökuhermar sem sýna og skýra þá krafta sem leysast úr læðingi í vélknúinni umferð og hvaða afleiðingar geta orðið, fari eitthvað úrskeiðis.

Framkvæmdastjóri danska umferðarráðsins segir að í ökuskólanum í Limlestingarbæ gefist unglingum einstakt tækifæri til að sjá og skilja afleiðingar óábyrgrar umferðarhegðunar. Það sé gömul saga og ný að unglingar verði að finna hlutina á eigin skinni áður en þeir breyti hegðun sinni. Hefðbundnar áróðursherferðir megni það ekki.

Þess má að lokum geta að félagsfólk í FÍB fær afslátt af aðgangseyri í Experimentarium í gegn um Show your Card afsláttarnetið. Aðeins þarf að sýna félagsskírteini FÍB við innganginn og fær þá félagsmaðurinn og fjölskylda hans afsláttinn. Af aðgöngumiða hinna fullorðnu er veittur 2ja evru afsláttur en afsláttur af barnaaðgöngumiða er 1,30 evrur. Experimentum er að Tuborg Havnevej 7 í Hellerup.