Ökutækjum á Íslandi fjölgar áfram

Ökutækjum á Íslandi heldur áfram að fjölga. Í árslok 2017 voru skráð ökutæki í landinu 366.888 en á þeim tíma voru 294.482 ökutæki í umferð. Af þessu má sjá voru að meðaltali því fleiri en eitt ökutæki skráð á hvern Íslending 2017.

Frá árinu 2011 hefur ökutækjum á skrá fjölgað um tæp 23% á meðan mannfjöldi á sama tímabili hefur einungis aukist um 9%. Samkvæmt flokkun Samgöngustofu eru bensínbílar ennþá ríflega tveir þriðju allra ökutækja. Hlutur annarra orkugjafa hefur þó aukist nokkuð á milli ára.

Það ætti ekki að koma á óvart að flestir nýskráðir bílar 2017 voru á höfuðborgarsvæðinu. Samtals voru 14.485 bílar nýskráðir í þeim landshluta eða rúmlega tveir þriðju allra nýskráðra bifreiða á árinu. Um helmingur nýskráðra bíla á landinu voru bílaleigubílar.

Fjölgun í nýskráningum rafbíla hefur verið töluverð. Árið 2016 voru nýskráningar 376 en fór upp í 847 bíla árið 2017. Tengiltvinnbílar komu á markað 2014 og hefur aukningin undanfarin ár verið mest í nýskráningum á slíkum bílum. Árið 2016 voru 691 tengiltvinnbílar nýskráðir en árið árið 2017 voru þær um 1.380. Þrátt fyrir að hafa verið töluvert skemur á markaði eru tengiltvinnbílar nú flestir og hafa 2.957 tengiltvinnbílar verið skráðir frá 2014.