Öldugangur á eldsneytinu

Mikill öldugangur er í verðlagsmálum gömlu olíufélaganna þessa dagana. Sl. mánudag hækkuðu þau verðið á bensíninu en drógu hana til baka strax daginn eftir vegna markaðsaðstæðna á Íslandi eins og það var orðið á vefsíðu Esso.
Í gær, fimmtudag hækkaði bensínið svo um kr. 1,90 og dísilolían um kr. 1,40. Nú fyrir stundu birtist svo tilkynning á vefsíðu Esso um að hækkunin frá í gær er dregin að hluta til baka. Tilkynningin er svona: „ Olíufélagið hefur ákveðið breytingu á verði bensíns, dísil- og gasolíu í dag, 8. apríl. Lítrinn af 95 oktana bensíni lækkar um kr. 1,20 en af dísil- og gasolíu um kr. 0,20.“
Heimsmarkaðsverð eldsneytis hefur verið á stöðugri uppleið undanfarnar vikur og mánuði. Það merkilega hefur gerst hér á landi að fylgni milli útsöluverðs innanlands og heimsmarkaðsverðs hefur minnkað. Hefði útsöluverðið verið í beinum takti við heimsmarkaðsverðsþróunina undanfarnar vikur væri það talsvert hærra en það þrátt fyrir allt er nú. Þessi þróun er skýr vísbending um að gömlu olíufélögin eru á tánum vegna örfyrirtækisins á markaðinum og hafa einfaldlega dregið úr álagningu sinni á bílaeldsneytið í samkeppninni við Atlantsolíu.