Öldungur í andlitslyftingu

http://www.fib.is/myndir/Benz-GWagen.jpg
Mercedes Benz Geländewagen.


Eini raunverulegi ellibelgur evrópsks bílaiðnaðar er hinn stórgerði jeppi; Mercedes Geländewagen, eða G-Benzinn, en þessi gerð hefur verið í samfelldri framleiðslu í 28 ár. Nú fær þessi lífseigi bíll andlitslyftingu sem sennilega verður sú síðasta. Nýja útfærslan verður frumsýnd á bílasýningunni í Genf sem opnuð verður eftir mánuð.  

Yfirleitt er líftími bílgerða nú á seinni tímum um sjö ár en þá eru gerðar svo veigamiklar breytingar að ekki er lengur um sama bíl að ræða þótt nafnið kunni að vera hið sama. Þegar það gerist er talað um kynslóðaskipti.  Á G-Benzanum hafa engar slíkar breytingar verið gerðar þau 28 ár sem framleiðsla á honum hefur staðið. Nokkrar minniháttar útlits- og tæknibreytingar hafa hins vegar verið gerðar og sú nýjasta verður semsé sýnd í Genf eftir mánuð. Ekki er talið að fleiri slíkar verði gerðar enda er meintur arftaki þegar kominn fram á sjónarsviðið en það er Mercedes Benz GL sem var heims-frumkynntur blaðamönnum hér á Íslandi sl. vor.

Andlitslyftingin á gamla góða G-Benzanum felst einkum í nýju grilli og framenda og nýjum aðalljósum og díóðuljósum að aftanverðu. Þá fæst hann framvegis með hinni nýju 7G-Tronic sjálfskiptingu.