Öldungur líður undir lok

Indverska bílaverksmiðjan Maruti (Suzuki-Maruti fullu nafni) hefur nú hætt að framleiða einn af langlífari bílum bílasögunnar; Hindustan Ambassador. Framleiðsla á bílnum undir þessu nafni hófst í Indlandi árið 1957, en í raun er um að ræða breska bílinn Morris Oxford frá 1954.  

Framleiðslan á Hindustan Ambassador var í upphafi hluti áætlunar stjórnvalda í Indlandi um að nútímavæða landið og láta það líta út í augum umheimsins sem tæknivætt nútímaríki. Sú áætlun var reyndar sama eðlis og bílaframleiðslan var í gömlu Sovétríkjunum á Moskvítsum, Volgum og Rússajeppum og í A. Þýskalandi á Wartburg og Trabant. Markaðshlutdeild Hindustan Ambassador var lengi vel ótrúlega há, en þegar á mestu gekk í framleiðslunni var hátt í helmingur allra nýskráðra bíla í Indlandi Hindustan Ambassador.

Bíllinn tók að láta undan síga um 1980, enda má segja að hann hafi þá verið orðinn úreltur. Um svipað leyti hófst samstarf með Maruti verksmiðjunum og Suzuki í Japan og framleiðsla á Suzuki bílum hófst í Indlandi. Samstarfið hefur reynst mjög farsælt og í dag er Maruti undir nafninu Suzuki-Maruti ennþá stærsti bílaframleiðandi Indlands og framleiðir góðan helming allra þeirra bíla sem nýskráðir eru í þessu stóra og mannmarga ríki. Og langflestir þessara bíla eru Suzuki bílar en Hindustan Ambassador hefur hörfað jafnt og þétt. Enn er hann þó byggður til leiguaksturs í nokkurra þúsunda eintaka upplagi  og er enn lang algengasti leigubíll Indlands.