Olís hækkaði bensínlítrann um 4 krónur í gær

Olís hækkaði um miðjan dag í gær bensínlítrann um 4 krónur og dísillítrann um 2 krónur. Hin félögin á markaðnum breyttu ekki sinni verðlagningu.  Í hádeginu í dag hækkaði N1 besínið um 3 krónur á lítra – krónu minna en Olís – en dísilolíulítrinn hækkaði einnig um 3 krónur hjá N1 eða um krónu umfram hækkunina hjá Olís. 

Þessi hækkun Olís og N1, sem eru með sameiginlegt birgðahald og dreifingu á eldsneyti undir merkjum Olíudreifingar, er úr takti við þróun markaða liðna viku. Fyrirtæki sem vilja viðhalda trúverðuleika á markaði geta ekki komið með eina skýringu í dag og aðra á morgun. Hækkun þessara sömu félaga fyrir um viku síðan var skýrð með verðhækkun á heimsmarkaði. En svo vill þó til að markaðsverð á eldsneyti í dag er hagstæðara að teknu tilliti til gengisþróunar krónunnar heldur en það var fyrir viku síðan.  

Olís gaf samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins þá skýringu á hækkuninni í gær að um væri að ræða uppsafnaða hækkunarþörf þar sem viku gamla hækkunin hafði ekki dugað til. Bensín og dísilolía til bifreiðanota er með stærri útgjaldaliðum heimilanna og það verður að gera þá kröfu til olísölufyritækja að verðmyndunin á þessari vöru sé gegnsæ og sanngjörn.

Þegar þessi frétt var í vinnslu hækkaði Skeljungur verðin hjá sér um sömu krónur og Olís.