Olís hækkar bensínið í 256,70

Olís hækkaði í gær bensínlítrann um 4 krónur, úr 252,70  í 256,70 krónur.  Þegar þetta er ritað hafa hin félögin á markaðnum ekki hækkað verðin líkt og Olís.  

Tonnið af bensíni lækkaði á Norður-Evrópumarkaði í gær um 24 dollara. Að teknu tilliti til gengis þá lækkaði hver lítri af bensíni á heimsmarkaði þannig um 2 krónur. Sérkennilegt hlýtur það því að teljast af Olís að hækka verðið um fjórar krónur í kjölfar þessarar lækkunar um tvær krónur! 

Álagning olíufélaganna af bensíni það sem af er ágústmánuði hefur verið í samræmi við álagningu síðustu missera uppreiknað með vísitölu neysluverðs. Álagning á dísilolíu er hins vegar 2 til 3 krónum yfir meðalálagningu síðustu ára.

Þessi verðhækkun og álagningin á eldsneyti til íslenskra neytenda er auðvitað einnig athyglisverð í ljósi nýlegra ummæla Hermanns Guðmundssonar fyrrum forstjóra N1 í viðtali við Viðskiptablaðið. Þar sagði Hermann að olíufélögin gætu svosem lækkað álagningu sína á bensín og dísilolíu. N1 hefði hins vegar ákveðið að vera ekkert að því vegna þess að hjá N1 væri mönnum umhugað um að koma ekki höggi á samkeppnisfyrirtækin sem væru ekki jafn vel sett fjárhagslega eins og N1 hefði verið undir hans stjórn. 

Þessi ummæli Hermanns er auðvelt að túlka sem viðurkenningu á ólögmætu samráði félaganna og þau geta þannig varðað við samkeppnislög, enda eru þau nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu skv. fréttum.

Fyrir neytendur skiptir miklu máli að yfirvöld fari vel yfir þessi mál því hver viðbótarkróna við álagningu á eldsneyti hjá olíufélögunum kostar bíleigendur yfir 350 milljónir króna á ári.