Olís skreytir sig með vafasömum fjöðrum

The image “http://www.fib.is/myndir/Olislogo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Olíufélag í sérkennilegum ímyndarþvotti.
Olís er þessa dagana að skreyta sig með harla vafasömum fjöðrum og lýsir á hendur sér alveg einstaklega mikilli ánægju viðskiptavina og bjargföstu trausti í auglýsingaherferð. Í þessum auglýsingunum ber fyrirtækið fyrir sig ánægjukönnun og ánægjuvog  sem Gallup hafi gert og leiði í ljós að almenningur beri mjög mikið traust til Olís og líki afskaplega vel að versla þar eldsneyti, pulsur og nammi.  Á heimasíðu Olís segir m.a. þetta: „Olís varð í fyrsta sæti í Ánægjuvoginni 2004 í flokki smásölufyrirtækja....Ánægjuvogin er mjög ítarleg mæling, framkvæmd einu sinni á ári, á ánægju viðskiptavina helstu fyrirtækja í nokkrum atvinnugreinum og er Olís í flokki smásölufyrirtækja.“
Samkvæmt upplýsingum frá Gallup voru 25 fyrirtæki mæld í ánægjuvoginni 2004.  Gallup segir að rannsóknir hafi sýnt fram á að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu geti fyrirtækið gert sér vonir um.  Tveir markaðir, olíufélög og stórverslanir í dagvöru voru einungis mældir á ánægju viðskiptavina (3 spurningar), en aðrir markaðir voru mældir á öllum þáttum ánægjuvogarinnar.  
Hringt var í úrtakshóp í tvennu lagi á síðasta ári.  Fyrri hringingin var 6. júlí  og sú síðari 2. október 2004.  Nú tæpu hálfu ári seinna skreytir Olís sig með þessum niðurstöðum sem voru fengnar úr svörum viðskiptavina áður en  úrskurður Samkeppnisráðs í hinu grófa samráðsmáli Olíss, Esso og Skeljungs var birtur. Niðurstöðurnar sem fyrirtækið nú flaggar sem glænýjum, eru því frá því löngu áður en almenningur vissi um hvernig þetta fyrirtæki og hin olíufélögin tvö höfðu gengið einbeitt fram í því að hafa af almenningi fé með ólöglegu samráði um langt árabil.
Vogarauglýsingarnar byggja á gömlum grunni og segja ekkert um viðhorf neytenda til Olíss í dag.  Ánægjuvog Olíss seig verulega við niðurstöðu Samkeppnisráðs á liðnu ári.  Í kjölfarið lofuðu forsvarsmenn fyrirtækisins viðskiptavinum sínum bót og betrun.  Vogarauglýsingarnar eru ekki til marks um það að hugur fylgi hönd hjá Olís.