Olíufélögin lækkuðu aftur

Olíufélögin sem hækkuðu eldsneytisverð skömmu fyrir síðustu helgi hafa að mestu dregið til baka forsendurýra eldsneytishækkun sína frá því sl. fimmtudag og næstu dagana á eftir.

Það var upphaflega Olís sem reið á vaðið með þessa hækkun og sagði talsmaður félagsins við fréttamann RÚV að forsendan væri hærra innkaupsverð. Þegar það var athugað, kom í ljós að engin hækkun hafði orðið á heimsmarkaði. Og ekki heldur var hægt að vitna til gengis krónunnar. Þá greip talsmaðurinn til þess ráðs að segja að næsta hækkun þar á undan hefði ekki verið nógu mikil og því væri verið að klára hana.

Hin olíufélögin tóku ekki snarlega við sér að elta Olís. N1 og Skeljungur fetuðu þó  sömu slóð, sem og sjálfsafgreiðsluhluti Olíss; ÓB. Atlantsolía og sjálfsafgreiðslufélag Skeljungs, Orkan, tóku ekki þátt í hækkununum.

Í dag, þriðjudaginn 23. mars kostar bensínið hjá Olís, Skeljungi og N1 yfirleitt 207 kr. en var fyrir helgina 212,2 kr. í sjálfsafgreiðslu. Verð dísilolíulítrans er óbreytt; 204,9 kr.  Hjá Olís er bensínið ódýrast á Sauðárkróki og kostar bensínlítrinn þar í sjálfsafgreiðslu kr. 199,0 og dísilolían kostar 197,70.

Hjá ÓB er bensínlítraverðið yfirleitt kr. 204,70 og dísilolíulítraverðið er kr. 200,10. Lægst er verðið við Snorrabraut. Þar kostar bensínið kr. 195,90 og dísilolían kr. 191,0. Hjá Atlantsolíu er algengasta verð kr. 204,70 og dísilolían er á kr. 200,10. Lægsta verðið er í Öskjuhlíð; kr. 196,0 og dísilolían á kr. 191,10.

Hjá Orkunni er algengasta verðið kr. 204,60 og á dísilolíunni kr. 200,00. Lægst er verðið á Miklubraut (beggja vegna vegarins). Þar er bensínlítrinn á 195,80 og dísilolían á kr. 190,90.