Olíufyrirtækin standa frammi fyrir miklum breytingum

Hámarks olíuframleiðslu hefur verið náð að mati olíufyrirtækisins Shell. Fram kemur í fréttamiðlum að hámarkinu hafi reyndar verið náð 2019 og eins og staðan er í dag verður annað eins magn ekki framleitt aftur. Í umfjöllun kemur ennfremur fram að losun koltvísýrings hafi náð hámarki árið 2018, þar sem 1.7 gígatonnum af koltvísýringi var sleppt út í andrúmsloftið.

Ekki einungis Shell stendur frammi fyrir þessum breytingum því önnur fyrirtæki hafa afskrifað eignir í sínum uppgjörum og tap í rekstri er töluvert.

Nýorkubílum fjölgar jafn og þétt, sérstaklega þó á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Sala á rafbílum hefur einnig tekið mikinn kipp í Asíu. Þegar sala á bensíni og dísilolíu minnkar til lengri tíma litið er mikilvægt fyrir olíurisana að laga sig að aðstæðum. Shell hefur í hyggju að fjölga rafhleðslustöðum um fimm hundruð þúsund fyrir árið 2025. Í tilkynningu frá Shell koma fram áform um mikla fjárfestingu í „nýjum orkuafurðum“ með enga nettó losun koltvísýrings árið 2050.

Fyrr á þessu ári keypti Shell einnig fyrirtæki sem þróar svokallaða „ljósastaurahleðslu“ á rafbílum. Keppinauturinn OKQ8 mun smíða 800 ný hraðhleðslutæki fyrir rafbíla á 300 stöðvum keðjunnar.

,,Við verðum að veita viðskiptavinum okkar þær vörur og þjónustu sem þeir vilja og þurfa, vörur sem hafa sem minnst umhverfisáhrif,“ segir Ben van Beurden, yfirmaður Royal Dutch Shell.