Olíugjaldið lækkað um 4 krónur
09.05.2005

Geir H. Haarde fjármálaráðherra.
FÍB fagnar lagafrumvarpi fjármálaráðherra um fjögurra króna lækkun á olíugjaldi á dísilolíu fyrir bifreiðar frá 1. júlí til 31. desember nk. Þótt lækkunin sé tímabundin er hún engu að síður mikilvægt skref í þá átt að breytingin úr þungaskatti í olíugjald verði farsæl og almenn sátt ríki um hana.
Með því að hafa olíugjaldið óbreytt stefndi í það að hver lítri af dísilolíu yrði dýrari en bensínlítrinn. Það hefði þýtt að færri bifreiðaeigendur hefði endurnýjað bensínfólksbifreiðar sínar í dísilknúnar bifreiðar en ella og umhverfislegur og þjóðhagslegur ávinningur af breytingunni hefði orðið rýrari.
Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a. að mikilvægt sé að innbyrðis samræmi sé í skattlagningu á dísilolíu og bensíni þannig að dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafa verið hingað til og að sambærilegar rekstrarforsendur eigi við hvort sem bifreið er dísil- eða bensínknúin.
Þetta eru einmitt þau sjónarmið sem FÍB hefur haldið fram. Því fagnar félagið því að ráðherra hafi nú tekið undir þau með þessum afgerandi hætti.
English
Gerast Félagi
Eldsneytisvaktin

