Ólögleg notkun á farsímum undir stýri minnkar

Ólögleg notkun á farsímum undir stýri minnkar á milli ára en notkun á handfrjálsum búnaði eykst. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR á farsímanotkun landsmanna undir stýri sem framkvæmd var dagana 8.-12. nóvember 2018.

Alls sögðust 49% svarenda hafa notað farsíma undir stýri fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði á síðustu 12 mánuðum, 34% fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar, 30% til að nota leiðsögukort (svo sem Google Maps), 16% til að skrifa eða lesa tölvupósta, sms eða annars konar skilaboð, 6% til að fara á internetið, 6% til að taka mynd og 1% til að spila tölvuleik. Þá kváðust 22% svarenda ekki hafa notað farsíma undir stýri á síðustu 12 mánuðum.

Hlutfall þeirra landsmanna sem notað hafa farsíma undir stýri fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar hefur lækkað með hverri mælingu frá árinu 2010 og er nú í fyrsta skipti lægra en hlutfall þeirra sem notað hafa farsíma fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði við akstur.

Þá lækkar hlutfall þeirra sem nota farsíma til að lesa skilaboð, vafra um á netinu, taka myndir og spila leiki einnig á milli ára en hlutfall þeirra sem hafa ekki notað farsíma við akstur helst að mestu óbreytt frá mælingu síðasta árs.

Í könnun MMR kemur fram að konur (26%) reyndust líklegri heldur en karlar (19%) til að segjast ekki nota farsíma undir stýri. Mestan mun á farsímanotkun eftir kynjum var að sjá í símtölum án handfrjáls búnaðar en 41% karla sögðust hafa átt slík símtöl við akstur, samanborið við 27% kvenna.

Notkun farsíma undir stýri minnkaði með auknum aldri en 47% svarenda í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) kváðust ekki hafa notað farsíma undir stýri á síðustu 12 mánuðum, samanborið við 14% þeirra 18-29 ára og 13% þeirra 30-49 ára.

Svarendur á aldrinum 30-49 ára voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa átt símtöl með handfrjálsum búnaði við akstur en þau 18-29 ára reyndust líklegust til að segjast hafa stundað aðra farsímanotkun við akstur en 46% þeirra kváðust hafa átt símtal án handfrjáls búnaðar, 58% kváðust hafa notað farsíma sem leiðsögukort við akstur og 32% til að skrifa eða lesa skilaboð.

Þá voru svarendur búsettir á landsbyggðinni (37%) líklegri en þeir af höfuðborgarsvæðinu (33%) til að tala í síma undir stýri án þess að nota handfrjálsan búnað. Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust hins vegar líklegri til að nota leiðsögukort í farsíma við akstur (35%), skrifa eða lesa skilaboð (18%) og nota handfrjálsan búnað (51%) en þau af landsbyggðinni.

Könnun MMR má nálgast hér.