Ómar í hörku árekstri

Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að geta skrifað þennan bloggpistil til að styðja forvarnarstarf, úr því að eina hlið þess ber á góma í fréttum,“ skrifar Ómar Ragnarsson á bloggi sínu. Ómar, sem var á reiðhjóli þegar hann lenti í árekstri við bíl á gangbraut á mótum Miklubrautar og Grensásvegar í liðinni viku, segir að reiðhjólahjálmur hans hafi varið höfuð hans í tvígang í slysinu.

Við áreksturinn stangaði Ómar og braut framrúðu bílsins með hjálminum. Þaðan kastaðist hann svo af bílnum um tíu metra fram fyrir bílinn og skall þar í götuna. Þar bjargaði hjálmurinn aftur höfði hans þegar það skall í harða götuna: „Ekki er víst að ég gæti skrifað þennan pistil einhentur ef ég hefði nýtt mér undanþágu fyrir fullorðið fólk til að nota hjálma þegar það hjólar á reiðhjólum. En börnum er skylt að nota þá,“ skrifar Ómar. Miðað við hve harður áreksturinn var má það teljast mildi að Ómar sé óbrotinn en vissulega talsvert lerkaður eins og geta má nærri.

Ómar ritar pistil sinn fyrst og fremst til að vekja athygli á reiðhjólahjálmum sem vörn gegn alvarlegum meiðslum. Töluverður hópur fólks ritar athugasemdir við pistilinn og talsverða furðu vekur innlegga framámanns í samtökum reiðhjólafólks sem dregur gagnsemi hjálmanna mjög í efa og vill ekki, eins og margir í samtökum þessum, að almenn skyldunotkun þeirra verið innleidd. Hann segir m.a: Þar sem ekkert bein brotnaði af hverju heldur þú þá að því hefði verið eitthvað öfugt farið með höfuðbeinin ef þú hefðir ekki notað hjálm? Ég get ekki betur séð en að fátt bendi til þess að þetta slys hefði orðið þér að alturtila þó þú hefðir verið hjálmlaus þó vissulega hefði höfuðmeiðslin vafalítið orðið meiri en þau blessunarlega urðu?“