OnStar-þjófavörn

http://www.fib.is/myndir/OnStar-logo.jpg
 
General Motors hefur búið til eigið neyðarkallkerfi fyrir bíla. Kerfið nefnist OnStar. Í kerfinu er nú möguleiki til að finna bíla, t.d. hafi þeim verið stolið og hægt er að senda boð um gervihnött í móttakara í bílnum til að gera hann ógangfæran og þar með ónothæfan. Ef t.d. bílþjófur er á flótta undan lögreglu er hægt að hægja á bílnum eða hreinlega að drepa á honum með því að senda símboð í stjórntölvu stolna bílsins og kemst þá þjófurinn hvorki lönd né strönd.

OnStar er í grunninn GPS staðsetningartæki. Það er hugsað til þess að ökumenn geti kallað á hjálp þegar þeir lenda í því að bíllinn bilar eða ef slys verður. Kerfið hringir þá í Neyðarlínuna eða aðra hjálparaðila og kallar á aðstoð. Það staðsetur jafnframt bílinn nákvæmlega þannig að hjálparaðilar eiga auðvelt með að finna hann og þaurfa ekki að treysta á misvísandi upplýsingar frá fólkinu í bílnum. Samskonar kerfi er í þróun í Evrópu og nefnist e-Call. Bæði OnStar og e-Call eru í stöðugu sambandi við staðsetningargervitungl og senda út neyðarkal sjálfvirkt, ef slys hefur orðið. Neyðarkallið er sent um hefðbundin  farsímakerfi. Móttakandi neyðarkallsins getur síðan séð nákvæmlega hvar bíllinn er staddur hverju sinni. http://www.fib.is/myndir/Onstar_metertext.jpg

En ef bíl er stolið getur stjórnstöð OnStar séð strax hvar bíllinn er staddur og sent boð í stjórntölvu hans um farsímakerfið - boð eins og að setja vélina á hægagang eða drepa á henni,  hemla og gera bílinn þannig óviðráðanlegan fyrir bílþjófinn. Þessi hluti kerfisins kallast Stolen Vehicle Slowdown eða -hemlun fyrir stolinn bíl.

GM fullyrðir að  Stolen Vehicle Slowdown kerfishlutinn í OnStar sé  eingöngu hjálpartæki og rækilega hafi verið gengið úr skugga um að enginn utanaðkomandi geti sett bíleigendur eða löglega notendur bíla með OnStar-kerfi, né heldur aðra vegfarendur í hættu eða vandræði. Mjög strangar reglur hafi verið settar um hvernig megi nota Stolen Vehicle Slowdown kerfishlutann. Hann sé eingöngu aðgengilegur fyrir lögreglu eftir að þjófnaður á bílnum hefur verið tilkynntur og lögreglumenn á vettvangi geta séð hinn stolna bíl með eigin augum.

OnStar leiðsögukerfi General Motors var tekið í notkun árið 1995 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Frá 1995 hefur með hjálp kerfisins tekist að finna yfir 28.000 bíla. Í dag eru tilkynntir um það bil 700 þjófnaðir á bílum á mánuði til OnStar-stjórnstöðvarvinnar fyrir Bandaríkin og Kanada.

Kannanir hafa sýnt að  um 95% þeirra sem nota OnStar-leiðsögukerfi eru vilja líka fá  -Stolen Vehicle Slowdown kerfishlutann í bíla sína. Þeir munu nú fá þeim vilja sínum framgengt því að hann verður í öllum nýjum OnStar kerfum í GM bílum frá og með árgerð 2009. Alls verður kerfið þá sett í 1,7 milljón bíla.

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA segir að lögregla veiti um 30 þúsund sinnum bílum eftirför á hverju ári í Bandaríkjunum. Í þessum eltingaleikjum farast árlega um 300 manns og eignatjón verður oft gríðarlegt. Stofnunin fagnar því Stolen Vehicle Slowdown kerfishlutanum og vonast til að hann dragi úr úr lífs- og eignatjóni af völdum bílaeltingaleikja lögreglu og glæpamanna.