Opel á batavegi

http://www.fib.is/myndir/Opel-insignia.jpg

Opel Insignia, sá nýjasti frá Opel.

Opel er aftur kominn á rétt spor, Mikið átak í gæðamálum þessa aldna bílmerkis hefur verið gert og evrópskar neytendakannanir sýna að eigendur eru mjög ánægðir með Opelbíla sína og með þjónustu og viðmót sölu- og þjónustuaðila. Þetta er alger viðsnúningur frá þeim tíma þegar allt logaði í málaferlum og kröfum á hendur umboðsaðila Opel um alla Evrópu vegna mislukkaðra og bilaðra bíla.

Í fréttaskýringu í dagblaðinu Berlingske Tidende  er niðurlæging Opel á níunda og tíunda áratuginum skrifuð á reikning Ignazio Lopez, þess  af forstjórum Opel sem hafði öll innkaup og samninga við undirframleiðendur á sinni könnu. Lopez hefur komið víða við í evrópskum bílaiðnaði og var m.a. um skeið háttsettur hjá Volkswagen. Á níunda áratuginum var almennt litið á Lopez sem mikinn snilling í því að auka framleiðni og skera niður framleiðslukostnað.

Það gerði Lopes óspart hjá Opel og segir í fréttaskýringunni að honum hafi næstum tekist að eyðileggja Opel með því að þvinga niður verð á öllum aðföngum eins og íhlutum og stáli. Afleiðingarnar urðu mjög lélegir, bilanagjarnir og ryðsæknir bílar sem kaupendur sniðgengu. Hjá Opel er nú talað fullum fetum um Lopez-áhrifin sem sköðuðu orðspor Opel þvílíkt að enn sér ekki fyrir endann á afleiðingunum. Vissulega hafi Lopez tekist að útvega verksmiðjunum í Rüsselsheim ódýrari íhluti í Opel en þeim fylgdu ólýsanleg vandræði og bilanavandamál sem fældu trygga Opel-kaupendur frá merkinu í stórum stíl.

Það hafi loks tekist að koma gæðamálum hjá Opel í viðundandi lag árið 1997, löngu eftir að Lopes hafði látið af störfum. En álit bílakaupenda á Opel var þá orðið svo laskað að önnur tíu ár liðu áður en bílakaupendur tóku að sannfærast um að Lopez-áhrifin væru ekki lengur til staðar og Opel bílar væru ekki lengur frámunalega og óviðunandi bilanagjarnir.

Í nýjustu bilanatíðnitölum ADAC, hins þýska systurfélags FÍB  sem unnar eru upp úr útköllum vegaþjónustu ADAC og birtar eru í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins sem nú er verið að dreifa til félagsmanna, sýnir það sig að Opel sem um langt árabil hefur setið í neðstu sætunum með bila sína hefur verið að færast mun ofar. Og í skýrslu þýska bílaskoðunarfyrirtækisins TÜV fyrir síðasta ár kemur fram að Opel Meriva var sá bíll sem fæstar athugasemdir voru gerðar við í skoðun tveggja til þriggja ára gamalla bíla.

Upplýsingafulltrúi General Motors í Danmörku segir í samtali við Berlingske Tidende að Opelbílar hafi ennþá þá ímynd hjá mörgum að þeir séu bílar með tímareima- og ryðvandamál. Það taki ekki langan tíma að eyðileggja  góða ímynd en mjög langan tíma að byggja upp góða ímynd á ný.