Opel Ampera-e – kemst hann 400 eða 500 km?

Þótt Ford, Mazda og Volvo taki ekki þátt í bílasýningunni í París sem opnuð var almenningi sl. laugardag, þá er Opel á staðnum og sýnir m.a. hinn nýja rafbíl Opel Ampera-e. Hann er nú, eftir að búið er að eyðslumæla hann samkvæmt NEDC-staðlinum, sagður komast 500 km á rafhleðslunni sem er 100 km betra en áður hefur verið sagt.

Reyndar er það nú svo að NEDC mælingin þykir almennt vera of fjarri raunveruleikanum í daglegri notkun. Þessvegna er nýr mælingastaðall í undirbúningi sem á að sýna orkunotkun bíla nær því sem hún raunverulega er í venjulegri notkun. Sérstaklega hefur NEDC mælingin þótt sýna drægi rafbíla í full björtu ljósi.

En hvort heldur sem Opel Ampera-e kemst 400 eða 500 km er hér kominn einn lagdrægasti hreini rafbíllinn, (kannski að frátöldum Tesla S) eins og sjá má af myndinni. Þótt verðið hafi ekki enn verið kunngert þá herma óstaðfestar fregnir að það verði samkeppnisfært við hina rafbílana sem myndin sýnir.

Opel Ampera-e er 4,17 metra langur og farangursrýmið er 381 lítra. Rafhlöðusamstæðan er 60 kWh og er hún innbyggð í gólf bílsins og tekur því ekkert pláss í hvorki farangurs- né fólksrýminu. Knýmótorinn er 204 hö. Hann togar 360 Newtonmetra og hámarkshraðinn er takmarkaður við 150 km á klst.

Þokkaleg millihröðun bíla er talsvert öryggisatriði við framúrakstur og sérstaklega þó góð hröðunargeta á hraðabilinu 80-120 km/klst. Þar stendur þessi bíll sig vel og er 4,5 sek. úr 80 í 120.

Opel Ampera-e verður fáanlegur í Evrópu næsta vor. Hvenær hann verður fáanlegur á Íslandi liggur ekki fyrir á þessari stundu né heldur hvað hann muni kosta.