Opel Ampera-e og Chevrolet Bolt – einn rafbíll undir tveimur merkjum

General Motors er að hefja fjöldaframleiðslu á nýjum meðalstórum rafmagns- fólksbíl sem nefnist Chevrolet Bolt. Á bílaráðstefnu í Bochum í Þýskalandi í sl. viku greindi Mary Barra forstjóri GM frá því að senn hæfist fjöldaframleiðsla á nýjum og mjög langdrægum rafmagnsbíl hjá Opel; Opel Ampera-e. Nú er svo komið í ljós að um er að ræða einn og sama bíl undir tveimur undirmerkjum GM og verður hann framleiddur í Bandaríkjunum undir báðum nöfnum.

Chevrolet Bolt nafnið minnir óneitanlega á „rafstöðvarbílinn“ Chevrolet Volt sem er rafbíll með bensínrafstöð sem framleiðir straum inn á rafgeyma í bílnum. Hlaða má einnig geymana með því að stinga bílnum í samband við rafmagnsinnstungu. Bæði Volt og „þýski“ systurbíllinn Opel Ampera voru framleiddir hlið við hlið í Bandaríkjunum og sömu sögu verður að segja um nýju bílana sem munu heita Chevrolet Bolt í Bandaríkjunum og Opel Ampera-e í Evrópu. Þeir verða framleiddir í Orion bílaverksmiðju GM í útjaðri Detroitborgar. Framleiðslan hefst í lok þessa árs almenn sala í bæði Bandaríkjunum og Evrópu upp úr miðju næsta ári. Áætlað verð í Bandaríkjunum er rétt undir 30 þús. dollurum (um 4 milljónir kr.)

Bolt/Ampera-e verður hreinn rafbíll. Hann verður fimm sæta og fjögurra dyra og drægið verður á pari við Tesla S sem nú er langdrægasti rafbíllinn og kemst með góðu móti 3-400 km á hleðslunni. Bolt/Ampera-e er hins vegar nokkru minni en Tesla S og miklu ódýrari.  

Samkvæmt fréttum frá Opel í Þýskalandi markar Ampera-e upphaf nýrrar langtímaáætlunar í bílaframleiðslu Opel, þeirrar stærstu, framsýnustu og metnaðarfyllstu til þessa. Samkvæmt áætluninni er Ampera-e fyrsta gerðin af 29 nýjum Opel bílgerðum  Ampera-e er sagður verða mjög háþróaður tæknilega og marka tímamót í mörgu tilliti. Ekki aðeins verði hann einn langdrægasti rafmagnsbíllinn hingað til, heldur líka á sérlega hagstæðu verði og með aksturseiginleika í sérflokki.