Opel Ampera-e sýndur í París

Hreini rafbíllinn Opel Ampera-e verður sýndur á bílasýningunni í París sem hefst undir lok þessa mánaðar. Þessi langdrægi rafmagnsbíll er síðan væntanlegur á almennan markað snemma á næsta ári. Hann er einn 29 nýrra bílagerða sem Opel er á fullu við að demba á markað fram til 2020.

Bolt er sami bíll og hinn bandaríski Chevrolet Bolt EV. Einungis lítilsháttar útlitsmunur skilur þá að. Hvað stærð varðar er Ampera-e eiginlega mitt í milli Opel Corsa og Opel Astra. Rafmótorinn í honum er 200 hö. Og drífur framhjólin. Hann er rétt rúmar 7 sek. Í hundraðið og kemst á tæplega 150.

Ampera-e mun fást bæði tveggja og fernra dyra en síðarnefnda útgáfan er sögð með stærri rafgeymapakka og bíllinn því einn langdrægasti rafbíllinn í boði. Uppgefið drægi á hleðslu er 320 – 460 km (síðari talan að viðbættri hálftíma hraðhleðslu). Til samanburðar þá er uppgefið drægi Nissan Leaf með stærri rafhlöðupakkanum (40 kWst.) tæplega 250 km.

Rafhlöðurnar í Ampera-e eru í gólfi bílsins sem samkvæmt frétt Opel þýðir það að hann verður mjög rúmgóður auk þess sem farangursskottið er stórt – um 480 lítrar að rúmtaki.

Helstu stjórntæki önnur en stýri, hemla og inngjöf er að finna á 10,2 tommu snertiskjá. Þar má stilla og stjórna hita, loftræstingu, GSP-leiðsögninni, útvarpi og tónlistarflfutningi frá Spotify. Síðastnefndi þátturinn er tölvutæknibúnaður sem nefnist Apple CarPlay en líka er til staðar búinaðurinn Android Auto. Í bílnum er ennfremur kerfið OnStar tech sem nettengt getur bílinn þannig að hann hringir sjálfur í neyðaraðstoð ef eitthvað kemur fyrir.

,,Rafbílar hafa mikla burði til að stuðla að verndun lofthjúpsins og minnka útblástursmengun. Hinn nýi Ampera-e er stór áfangi á þeirri vegferð að lækka þá þröskulda sem verið hafa í vegi rafbíla fram að þessu, en þeir eru hátt verð og skammdrægi,” sagði Dr. Karl-Thomas Neumann forstjóri Opel við fréttamenn.

Hann nefndi ekki hvert verð bílsins yrði í Evrópu en í Bandaríkjunum kostar systurbíllinn Chevrolet Bolt EV um 4,4 millj. ísl. kr. Reikna má því með að verðið verði eitthvað svipað í Evrópu.