Opel Ampera út á hraðbrautirnar

 Á föstudag var einni frumgerðinni af rafbílnum Opel Ampera stungið í samband við rafmagnstengil í Opelverksmiðjunum í Rüsselsheim til að hlaða geymana upp. Á laugardagsmorgninum var svo ekið af stað á bílnum áleiðis til Genfar í Sviss þar sem bíllinn verður sýndur á bílasýningunni sem þar var opnuð fyrir blaðamönnum í morgun. Sýningin verður eingöngu opin blaðamönnum þar til á miðvikudag. Þá verður hún opnuð almenningi einnig. Sýningin stendur til 14 mars.

http://www.fib.is/myndir/Amperabilstjori.jpg
Gherado Corsini ók bílnum frá
sselsheim til Genfar. Hér er hann við
landamæri Sviss að líma hraðbrauta-
kvittun í framrúðuna.

 Opel Ampera er svar General Motors við kröfunni um sparneytnari bíla - bíla sem nýta jarðefnaeldsneyti mun betur en áður hefur þekkst. Hann er svokallaður EREV-bíll (Extended Range Electric Vehicle). Hann er eingöngu knúinn áfram af rafmótor. Geymarnir geyma straum til 60 km aksturs en þegar hann er við það að klárast fer ljósavél - bensínrafstöð í bílnum í gang og sér aflmótornum fyrir straumi. Opel Ampera á að koma á almennan markað í ársbyrjun 2012. Hann verður einnig á Ameríkumarkaði en undir nafninu Chevrolet Volt og Cadillac Converge. Hér er hægt að fylgjast með því hvernig ferðin gekk. Að vísu eru þeir Opelmenn ansi sparir á upplýsingar um eyðslu bílsins í ferðinni og hversu hratt var ekið.

Þessi nýi bíll hefur mikið verið kynntur af hálfu GM og aksturinn frá Rüsselsheim til Genfar er auðvitað hluti þessarar kynningar. Meiningin var auðvitað að komast alla þessa 600 kílómetra leið ,fyrst á 16 kílóWattstundum fullhlaðinna geymanna  og síðan á því bensíni sem var á bensíngeyminum fyrir rafstöðina í upphafi ferðar. Óljóst var í upphafi ferðar hvort þetta tækist þar sem bíllinn hefur hingað til verði sagður komast yfir 500 kílómetra á fullum geymum og fullum bensíntanki. Eftir því sem virðist komst bíllinn þessa 600 kílómetra á tanknum.

 Fjöldaframleiðsla á Opel Ampera hefst  undir lok næsta árs, 2011. Fyrstu þrjú árin verður Opel-útgáfan framleidd í Bandaríkjunum samhliða Chevrolet Volt, enda er þetta sami bíllinn. Einungis smá mismunur verður á ytra útliti bílanna.