Opel Antara – nýr jepplingur

http://www.fib.is/myndir/Opel-Antara-1.jpg
Opel Antara.

Opel er að verða tilbúinn með nýjan jeppling – Opel Antara sem kemur á markað í október. Bíllinn var sýndur sem hugmyndarbíll á síðustu bílasýningunni í Frankfurt. Antara verður sýndur á bílasýningunni í París í október nk. Og þá um leið hefst sala á honum í Evrópu.

Antara vakti nokkra eftirtekt á bílasýningunni í Frankfurt en þar var bíllinn sýndur í stuttri – þriggja dyra – útgáfu. Söluútgáfan verður þó ekki jafn djarfleg í útliti og sýningarbíllinn í Frankfurt heldur mjög svipaður hinum kóreska Chevrolet (Daewoo) Captiva enda verður um nánast sama bíl að ræða undir tveimur nöfnum. Captiva sem var sýnd á Genfarsýningunni í mars sl. er framleiddur hjá Daewoo í Kóreu en það verður Opel Antara einnig. Sem Captiva verður bíllinn fáanlegur bæði fimm og sjö sæta en sem Antara eingöngu fimm sæta.

Byrjað verður að selja Chevrolet Captiva á Evrópumarkaði í júnímánuði og verður hann fáanlegur bæði sem framhjóladrifinn og fjórhjóladrifinn. Samkvæmt frétt frá Opel verður Antara hins vegar einungis fáanlegur með fjórhjóladrifi. Vélin í bæði Antara og Captiva er þverstæð í vélarhúsinun. Annarsvegar fást þeir með 2,4 l 141 ha. bensínvél eða 2,0 l 150 ha. dísilvél. Fáanleg verður einnig 3,2 l V6 vél sem einnig er í Opel Vectra. Sú er 224 ha.

Í bæði Antara og Captiva verður ESP stöðugleikakerfi, spólvörn og mismunadrifslæsingar staðalbúnaður. Þá mun fást sem aukabúnaður stöðugleikakerfi í dráttarkúlu fyrir tengivagna. Báðir eru mjög svipaðir að stærð og samkeppnisbílarnir frá t.d. Toyota, Honda, Hyundai og Kia.