Opel innleiðir „æviábyrgð“ á bílum

Þann 25, maí í vor lengdi Opel framleiðsluábyrgð á nýjum Opelbílum úr þremur í fimm ár og/eða 100 þúsund kílómetra. Og nú ætlar Opel (og Vauxhall í Bretlandi) bráðlega að bæta um betur og veita ábyrgð á nýjum bílum allt að 160 þúsund kílómetra akstri, en með ákveðnum undantekningum og fyrirvörum þó.

 Með þessu fetar Opel svipaða slóð og Hyundai, Kia og Ford hafa áður markað í ábyrgðarmálum hjá sér. Hjá Opel og Vauxhall er þetta hugsað þannig að fyrstu tvö árin gildir hin lögbundna framleiðsluábyrgð gagnvart göllum og bilunum sem kunna að verða. Eftir að hún rennur út tekur við ábyrgð gagnvart bilunum og göllum í meginhlutum bílsins eins og vél, drifbúnaði, rafkerfi, tölvubúnaði og hitunar og loftræstikerfi. Þessi ábyrgð nær til varahluta- og vinnukostnaðar og rennur út við 50 þúsund kílómetra akstursmarkið. Þegar svo þessi ábyrgð svo er útrunnin tekur við þriðja ábyrgðartímabilið sem endar við 160 þúsund kílómetra akstursmarkið. Hún nær til sömuleiðis til bilana í vélum, drifbúnaði o.s.frv, en sjálfsáhætta er nokkur og fer vaxandi með hækkandi aldri bílsins og hækkandi kílómetrateljaratölu á hraðamælinum.

Milli 50 og 60 þúsund kílómetra akstursmarka ábyrgist Opelverksmiðjan 90 prósent varahluta- og viðgerðarkostnaðar. En á bilinu 100 þúsund og 160 þúsund kílómetrar ábyrgist Opel 40 prósent varahluta- og viðgerðarkostnaðar..

 Með þessu tilboði telur Opel sig taka að mestu leyti ábyrgð á öllum erfiðustu og dýrustu bilunum sem fyrir geta komið á mestöllum líftíma bílanna. Þetta er nærri lagi hvað varðar Þýskaland, heimaland Opel því að árleg meðalnotkun fjölskyldubíla í landinu er í kring um 11 þúsund kílómetrar á ári.

Það má því til sanns vegar færa að þessar ábyrgðir samanlagt nái 15 árum sem er algengur líftími bíla í Evrópu. Opel getur því með nokkrum rétti talað um ábyrgð sem nær til alls líftíma bílsins, enda kalla Opelmenn þetta „lífsábyrgð“ en hafa orðið þó innan gæsalappa. Nýja ábyrgðin nær til bæði einstaklinga og fyrirtækja og til að hún taki gildi þarf að skrá bílinn inn á ábyrgðarfyrirkomulagið í síðasta lagi innan 26 mánaða frá nýskráningu bílsins.

Í tilkynningu frá Opel segir að gæðaátak undanfarinna ára hafi getið af sér svo miklu betri bíla en áður. Í því sambandi benda þeir á að Opel Corsa er samkvæmt nýrri rannsókn þýsku DEKRA stofnunarinnar sá nýi bíll sem hefur fæsta gallana þegar hann rennur af færiböndunum í verksmiðjum Opels. Samkvæmt DEKRA skýrslu ársins 2010 er 97,6 prósent nýrra Opel Corsa bíla án framleiðslugalla.