Opel kominn upp á núllið

The image “http://www.fib.is/myndir/OpelTigra.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Opel Tigra.
Eftir sex ára taprekstur og harðar sparnaðar- og hagræðingaraðgerðir hjá Opel lítur út fyrir að jafnvægi náist í rekstrinum á árinu sem senn er á enda. Carl-Peter Forster forstjóri GM Europe segist í viðtali við Automotive News Europe vera sannfærður um að betri tímar séu framundan og sagði að rekstur Opel kæmist trúlega í jafnvægi strax í ár, en það kæmi betur í ljós þegar bókhaldi ársins verður lokað.
Þótt það hljómi merkilega þá er það litli sportlegi bíllinn Opel Tigra sem er einn burðarásinn í því að betur gengur hjá Opel. Opel Tigra er afar vinsæll bíll í Evrópu og hefur verið um árabil, en hefur varla selst nokkurn skapaðan hlut á Íslandi nokkru sinni. En þótt skár gangi hjá Opel um þessar mundir en lengi áður eru enn erfiðleikar hjá GM Europe sem Opel er reyndar stór hluti af. Heimildir innan GM Europe herma að heildartap á samsteypunni (Opel, Vauxhall og Saab) verði milli 300 til 400 milljónir evra. Þó mikið sé er það þó ekki nema helmingurinn af tapinu á síðasta ári, þannig að landið virðist þrátt fyrir allt vera að rísa.
Á tímabilinu jan.-okt. á þessu ári jókst sala Opelbíla í Evrópu um 1,4%. Nýja gerðin af Opel Astra vegur þar þyngst en söluaukning milli ára er 35% og markaðshlutdeildin í þeim flokki bíla jókst úr 9,6 í 10,6%.
Forster segir að viðsnúningurinn sé að þakkamikilli hagræðingu á árinu sem m.a. höfðu í för með sér upsagnir 12 þúsund starfsmanna. Hann segir að aðgerðunum verði fylgt eftir með mörgum nýjum gerðum bíla. Aðspurður um mikið tap af Saab segir hann að Saab bílarnir séu ekki vandamálið þar heldur sölukerfið. „Allt of fáir Saab bílar seljast í Evrópu og hvernig stendur á því að í Bretlandi seljum við 28 þúsund Saab bíla á ári en aðeins sex þúsund í Þýskalandi. Það er engin vitræn skýring á því,“ sagði Carl-Peter Forster við Automotive News Europe.
The image “http://www.fib.is/myndir/Opel-Astra2006.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Opel Astra 2006.