Opel lokar í Bochum 2014

Stjórn General Motors hefur ákveðið að loka bílaverksmiðjunni í Bochum í Þýskalandi. Ákvörðunin var tekin í gær eftir að viðræður við verkalýðsfélög starfsmanna höfðu strandað.

Upphaflega vildi GM draga stórlega úr kostnaði við rekstur verksmiðjunnar en ekkert samkomulag náðist um það. Þá gaf GM verkalýðsfélögunum tvo kosti: annaðhvort að starfrækja verksmiðjuna með minnkandi afköstum og fækkandi mannskap til 2016 eða halda áfram í núverandi takti og skella svo í lás 2014. Hið síðastnefnda varð svo ofaná í gær.

Opel Zafira er byggður í Bochum verksmiðjunni. Hvert framleiðslan flyst er ekki ljóst enn, en Zafira er lang söluhæsti Opelbíllinn um þessar mundir. Kynslóðaskipti eiga að verða á Zafira eftir tvö ár og er hugsanlegt að þegar Bochum verksmiðjunni verður lokað eftir rúmt eitt ár, flytjist framleiðslan til höfuðstöðvanna í Russelsheim og verði þar það eina ár sem þá verður eftir af lífi núverandi Zafira kynslóðar.

Tap hefur verið á Opel um langt árabil og róa menn nú lífróður í því skyni að reyna að ná rekstrinum upp fyrir núllið í það minnsta. Vonast er til að nýi smábíllinn Adam, opni fjögurra sæta sportbíllinn Cascada og jepplingurinn Mokka eigi eftir að lyfta sölunni og bæta efnahaginn auk þess sem mikið fé hefur nýlega verið sett í það að þróa 23 nýjar bílagerðir og 13 nýjar driflínur.