Opið samráð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna fólksflutningabíla

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna fólksflutningabifreiða. Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum er til og með 15. febrúar 2022. Fyrra samráð vegna þessa máls (roadmap) var haldið í byrjun þessa árs.

Reglur sambandsins á þessu sviði eru þær sömu fyrir ökumenn vöruflutningabíla og ökumenn sem aka fólksflutningabílum. Framkvæmdastjórnin telur að núverandi reglur um aksturs- og hvíldartíma eigi ekki að öllu leyti jafn vel fyrir farþegaflutninga. Hún hefur því sett sér það markmið að aðlaga þær að þörfum ökumanna í þessum geira þannig að þeir geti betur skipulagt vinnutíma sinn.

Með nýjum reglum að loknu samráði er m.a. stefnt að því að bæta vinnuumhverfi ökumanna, auka öryggi á vegum og tryggja að ökumenn sem aka milli landa og þeir sem aka innanlands sitji við sama borð.

Gert er ráð fyrir að drög að reglugerð verði samþykkt á fjórða ársfjórðungi ársins 2022.