Opnað fyrir umferð um Axarveg

Unnið er að því að opna veginn yfir Öxi. Mikill og þykkur ís liggur yfir veginum og nokkurn tíma mun taka að losa hann af. Stefnt er að því að opna fyrir umferð föstudaginn 25. mars en vegfarendur þurfa að fara varlega vegna klaka sem enn er á veginum af því er fram kemur hjá Vegagerðinni.

Að sögn G. Rúnar Sigurðssonar, yfirverkstjóra á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Höfn í Hornafirði, var byrjað að moka á þriðjudaginn í þessari viku og voru snjóruðningsmenn 16 tíma að komast yfir heiðina með snjóblásara. Aðstæður eru dálítið óvenjulegar en minni snjór er á heiðinni sunnanverðri en menn erum vanir en mun meiri snjór norðanmegin þar sem vanalega er lítil snjósöfnun. Óvenjulegar vindáttir hafa mest að segja um þetta ástand en vindáttin var úr norð- norðaustri þegar mest snjóaði.

Axarvegurinn er nú mokaður í fyrra fallinu en oft hefur ekki verið mokað fyrr en um mánaðamótin mars/apríl. Notendur hafa þrýst mjög á um að opna veginn sem fyrst.

Rúnar vonast til að hægt verði að opna veginn fyrir umferð á morgun, föstudag. Áfram þarf þó að vinna við að fullmoka veginn í dag, á morgun og á laugardag.

 „Það er óvenju mikill klakabunki á veginum, sums staðar upp í 30 cm þykkur. Við notum veghefilinn til að rífa ísinn af og verðum vonandi búnir að ná ísnum úr brekkunum að sunnanverðu í dag,“ segir Rúnar en hvetur vegfarendur til að fara varlega meðan enn er ís á veginum. „Það geta myndast holur í ísnum sem vont er að aka ofan í.“