Opnunin er mun fyrr en undanfarin ár

Vegur 208 sem liggur í Landmannalaugar í friðlandinu Fjallabaki var opnaður fyrir helgina. Opnunin er mun fyrr en undanfarin ár, en snjólétt er á þessum hluta friðlandsins.

Landverðir í friðlandi að Fjallabaki hófu störf í byrjun júní. Þeir munu sinna eftirliti, fræðslu og upplýsingagjöf í friðlandinu. Viðvera landvarða verður aukin og landvarðatímabilið lengt fram í október vegna mikilla fjölgunar ferðamanna og lengingu ferðamannatímans.

Fyrstu verk landvarða þegar þeir mættu á svæðið, var að meta ástand náttúrunnar og undirbúa komu ferðamanna. Mesti tíminn fer í að afmá hjólför eftir utanvegaakstur til að koma í veg fyrir frekari náttúruspjöll. En utanvegaakstur er mikið vandamál í friðlandinu.

Einnig eru göngubrýr lagfærðar, skilti endurnýjuð, gönguleiðir stikaðar og gestir boðnir velkomnir. Fá þeir upplýsingar og fræðslu um allt frá landvörðum friðlandsins.

Áður en bílaumferð er hleypt inn á svæðið á vorin kannar Umhverfisstofnun ástand náttúru og Vegagerðin ástand vega innan friðlandsins. Meta stofnanirnar í sameiningu hvort svæðið sé tilbúið til að taka á móti fyrstu gestum sumarsins án þess að vegir eða náttúra verði fyrir skaða.

Í vetur unnu Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður og Vegagerðin tillögu um hvernig haga skuli akstursundanþágum og umgengni á friðlýstum svæðum á hálendinu þegar hálendisvegir eru lokaðir á vorin. Ekki kom til þess að veittar væru undanþágur á akstri inn í Landmannalaugar í ár þar sem vegurinn var opnaður það snemma.