Öruggustu bílarnir 2013 hjá Euro NCAP

Eftir sérhver áramót tekur Euro NCAP saman yfirlit yfir þá bíla sem best hafa staðist áreksturspróf á nýliðnu ári. Árið 2013 voru alls 33 bílar af sjö gerðarflokkum árekstursprófaðir. Þeir sjö bílar sem efstir urðu í hverjum flokki og besta vörn veita fullorðnum, börnum og fótgangandi og með besta slysavarnabúnaðinn eru:

 
 
 
1. Qoros 3.
2. Rafbíllinn Renault ZOE
3. Tvinnbíllinn Lexus IS300h.
4. Kia Carens.
5. Ford Tourneo Connect.
6. Jeep Cherokee.
7. Maserati Ghibli.
 
http://www.fib.is/myndir/NCAP6.jpg http://www.fib.is/myndir/NCAP7.jpg
http://www.fib.is/myndir/NCAP5.jpg http://www.fib.is/myndir/NCAP4.jpg
http://www.fib.is/myndir/NCAP3.jpg http://www.fib.is/myndir/NCAP2.jpg
http://www.fib.is/myndir/NCAP1.jpg  
 

Kínverski bíllinn Qoros 3 Sedan varð efstur í flokki meðalstórra fólksbíla og varð jafnframt stigahæstur allra þeirra bíla sem prófaðir voru á árinu af Euro NCAP. Qoros er fyrsti kínverski bíllinn sem hlýtur fimm stjörnur. Aðrir kínverskir bílar sem hingað til hafa verið prófaðir eftir forskrift Euro NCAP hafa verið órafjarri því.

Rafmagnsbíllinn Renault ZOE og Lexus IS 300h sem er tengiltvinnbíll af flokki stærri meðal-fólksbíla reyndust bestir í sínum flokkum. Í flokki minni fjölnotabíla reyndist Kia Carens  bestur og af fjölnotabílum sem byggðir eru á grunni lítilla sendibíla reyndist Ford Tourneo Connect vera sá besti. Loks reyndist hinn nýi Jeep Cherokee sá besti í flokki minni jeppa og jepplinga og Maserati Ghibli sá besti í flokki stórra fólksbíla og lúxusvagna.

Í byrjun árs 2013 uppfærði Euro NCAP matsreglur sína um vernd barna í bílnum. Í því fólst m.a. að framleiðendur bíla fengu plús fyrir búnað sem gerir auðvelt að festa í bíla allan algengasta barnaöryggisbúnaðinn sem fáanlegur er, að því gefnu að hann uppfylli fyllstu öryggiskröfur. Ennfremur var þá byrjað á að prófa sérstaklega sjálfvirkan viðvörunar- og hraðatakmörkunarbúnað bíla og telja með í heildar stigagjöfinni.

Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir að verklag og aðferðir Euro NCAP séu í stöðugri þróun og sífellt leitast við að laga þær að breytingum og þróun öryggisbúnaðar og öryggisþátta bíla og að væntingum neytenda. Það sé gleðilegur árangur þessa starfs að öryggismörk bíla hafi hækkað verulega og að bílar sem hlotið hafi fjórar tll fimm stjörnur hjá Euro NCAP séu vel viðunandi út frá öryggissjónarmiðum.

Í upphafi nýbyrjaðs árs hafi kröfur Euro NCAP enn verið hertar umtalsvert með því að taka nýjan öryggis- og slysavarnabúnað eins og radarsjón inn í prófunar- og matsferlið. Þessi búnaður bæði sér hindranir framundan og hemlar sjálfvirkt er slys er yfirvofandi. Hann les einnig mið- og kantlínur vega og grípur inn í aksturinn ef bíllinn stefnir inn á akreinina á móti eða út af vevginum. Sú ákvörðun að taka þennan búnað inn í prófunar- og matsferlið eigi eftir að auka almennt umferðaröryggi í Evrópu og vonandi verða neytendum hvatning að velja ávallt öruggasta kostinn þegar keyptur er nýr bíll.