Öryggistæki fyrir Tollinn

Tollgæslan fékk nýlega afhent nokkurt magn öryggisbúnaðar frá FÍB til að setja í bíla stofnunarinnar. Annarsvegar er um að ræða öryggisljós sem jafnframt er örygisbeltaskeri og rúðuhamar og hins vegar sjúkratöskur til að hafa í bílum tollgæslunnar. Það var Baldvin Á. Þórisson, sérhæfður tollvörður, sem tók við vörunum af Ólafíu Ásgeirsdóttur skrifstofustjóra FÍB, en þau sjást á myndinni sem tekin er við það tækifæri.

Baldvin segir í samtali við FÍB blaðið að athygli hans á öryggisvörum FÍB hafi vaknað þegar faðir hans gaf honum nýlega öryggisljós. Sér hafi sýnst þetta vera gott öryggistæki til að hafa í bílnum hjá sér. Hann hafi í framhaldinu sýnt yfirmanni sínum tækið. Honum hafi litist mjög vel á það og í framhaldinu skoðað á heimasíðu FÍB og fundið þar einnig góðar sjúkratöskur til hafa í tollbílunum. Í kjölfarið var ákveðið að kaupa þenna öryggisbúnað fyrir embættið.

„Bæði öryggisljósið og sjúkrataskan verða í öllum tollbílum sem stofnunin hefur yfir að ráða og verður notað þegar á þarf að halda. Við erum með tollverði út á landi sem þurfa að fara starfs síns vegna yfir heiðar og fjallvegi í ýmsum veðrum. Má þar að nefna t.d. Fjarðarheiði sem er oft ófær vegna snjóþyngsla. Þekki ég þetta sjálfur vegna afleysingar í starfi á Austurlandi, að vetrarlagi fyrir nokkrum árum. Þá hefði verið gott að hafa svona öryggistæki til taks, til að skera sætisbelti og hafa neyðarljósið/hamarinn til taks í neyðartilvikum,“ segir Baldvin.

Hann segir ennfremur að öryggisbúnaður hjá tollgæslunni sé í stöðugri skoðun og endurnýjaður að jafnaði á tveggja ára fresti. Hjá stofnuninni starfi öflugir öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefnd sem fylgist vel með, enda séu störf tollvarða mjög fjölbreytt og ýmislegt geti komið upp í daglegum störfum.