Osló dýrust

EuroTest hefur kannað verðlag í helstu stórborgum í Evrópu út frá sjónarhóli ferðamanna. Kannað var verðlag á eins konar ferðamannapakka sem inniheldur 20 kostnaðarliði, þar á meðal matvöru, þjónustu  og aðgangseyri að söfnum og skemmtigörðum, bjórglasi og í almannasamgöngukerfi borganna o.fl. Í ljós kemur að gríðarlegur munur er á verðlagi og er ódýrasta borgin Belgrad en Osló er dýrust. Munurinn milli þeirra er tæplega fjórfaldur.

 

Könnunin sýnir að það getur skipt talsverðu fjárhagslegu máli hvaða borgir fólk velur sér til heimsóknar nú þegar borgarferðirnar eru að hefjast. Ferðamannapakkinn kostar í Belgrad 41,46 evrur en 152,54 evrur í Osló. Ódýrustu borgirnar næstar á eftir Belgrad eru Zagreb, Ljubljana, Prag, Búdapest og Luxembourg. Þær dýrustu næst á undan Osló eru París, London, Kaupmannahöfn, Madrid og Barcelona. Sem dæmi um verðmun þá má nefna að heimsókn í dýragarðinn er sjöfalt dýrari í London en í Zagreb.   

Verðkannanirnar voru gerðar á fjórum vinsælustu ferðamannasvæðum hverrar af borgunum 20. Keyptar voru vörur og þjónusta nærri aðaljárnbrautarstöð borganna, í öðru lagi nærri fjölsóttum ferðamannastöðum þeirra, í þriðja lagi í aðal verslunarhverfinu og loks í dæmigerðu millistéttarhverfi nærri miðborginni.

Verulegur verðmunur reyndist vera á þjónustu almenningssamgangna borganna 20. Dýrasti dagsmiðinn var í Osló og kostaði 11,8 evrur. Ódýrasti dagsmiðinn var í Prag og kostaði 4,01 evru. Glas af bjór kostaði í Osló 6,23 evrur en eina evru í Prag.  

http://fib.is/myndir/EuroTest_20_byer_2014.jpg