Páfinn í Róm kominn á nýjan bíl

http://www.fib.is/myndir/PafaVolvo-litil.jpg
Benedikt páfi XVI prófar aftursætið.

Volvo í Gautaborg afhenti nýlega hans heilagleika, Benedikt XVI páfa nýjan bíl. Það var forstjóri Volvo á Ítalíu, Pascal Bellemans sem afhenti páfa lyklana að nýja bílnum eftir messu á Péturstorginu í Róm í síðustu viku.

Bellemans var mjög hrærður eftir að hafa hitt páfa augliti til auglitis og afhent honum lyklana að nýja bílnum og sagði við fréttamenn á eftir að það væri ekki að furða því slíkt gerðir ekki á hverjum degi. Volvo hefði alla tíð lagt mikla áherslu á öryggið og að páfi hefði valið Volvo væri mjög mikil viðurkenning fyrir Volvo.

http://www.fib.is/myndir/PopeVolvoExterior.jpgNýi Volvóinn verður einkabíll páfa og ekki notaður sem skrúðgönguvagn. Til þeirra nota hefur páfi endurbyggðan mercedes Bens ML jeppa. Volvóinn er útbúinn og innréttaður sem einkabíll segir í frétt frá Volvo. Ekkert er nefnt um hugsanlegan öryggisbúnað eins og hvort bíllinn sé skotheldur. Hann er dökkblár að lit með ljósri leðurinnréttingu. Vélin er V8.

En páfi hefur umráð yfir fleiri bílum því að ár er síðan BMW í Munchen gaf honum X5 jeppa.  En nú spyr sjálfsagt einhver hvort páfi aki sjálfur? Nei það gerir hann ekki og hefur ekki einu sinni bílpróf og hefur aldrei haft. En hann hefur átt bíla áður og meðan hann var ennþá Josef Ratzinger kardínáli í Bajaralandi í Þýskalandi átti hann Volkswagen Golf árgerð 1999 og ýmist bróður sinn eða einkaritara sem bílstjóra á Golfinum.

Þegar Josef Ratzinger var valinn páfi setti hann gamla Golfinn á bílasölu og þar keypti bílinn 21 árs gamall Þjóðverji. Þegar sá uppgötvaði hver hafði verið fyrri eigandi Golfsins, setti hann bílinn í sölu á e-bay á Vefnum. Drengurinn stórgræddi á viðskiptunum því að bíllinn fór á rúmlega 244 þúsund dollara. Kaupandi var spilavíti sem heitir Golden Palace.