Persónulegur vandi

Persónuleg vandamál sem hafa hellst yfir Jeremy Clarkson aðalkynni TopGear þáttanna á BBC undanfarið, settu hann úr jafnvægi og gerðu hann viðkvæman fyrir frekara áreiti. Tveimur dögum fyrir atvikið afdrifaríka á tökustað í Newcastle, þegar hann missti stjórn á sér og hellti sér yfir einn framleiðanda TopGear og sló til hans, hafði Clarkson fengið þau skilaboð frá lækni að trúlega væri hann kominn með krabbamein. Atvikið hafði þær afleiðingar að BBC ákvað að endurnýja ekki samstarfið við Clarkson, sem kunnugt er. Jeremy Clarkson hefur nú lýst aðdraganda atviksins í Sunday Times svo:

„Við vorum í miðjum tökum nýrrar þáttaraðar TopGear og TopGear var alltaf í forgangi. Tveimur dögum fyrir atvikið hafði ég fengið þau boð frá lækni að hnúðurinn á tungunni í mér væri líklegast krabbamein og að rannsaka yrði það nánar undireins. En það var bara útilokað. Við vorum í miðjum tökum á TopGear og TopGear var alltaf forgangsmál,“ segir Clarkson í vikulegum pistli sínum í Sunday Times.

Hann segir að um þetta leyti hafi hann verið undir þungu vinnuálagi. Hann hefði verið að ganga gegn um mikið erfiðleikatímabilið í lífi sínu. Nokkru áður hefði móðir hans látist og eiginkonan krafist skilnaðar. „Mér leið illa, búinn að missa heimili mitt og móður mína og sökkti mér því enn dýpra á kaf í vinnu – vinnu sem mér hefur nú, eins vitlaust og það nú hljómar, tekist að týna líka.“

Flestir búast við að dagar TopGear, vinsælustu skemmtiþáttaraðar allra tíma hjá BBC, séu nú taldir, í það minnsta í þeirri mynd sem þeir hafa verið hingað til. Meðstjórnendur hans í þættinum, þeir Richard Hammond og James May hafa báðir sagt að þeir séu ekki áhugasamir um að starfa að þáttunum með einhverjum öðrum en Clarkson. Jeremy Clarkson lætur að því liggja í pistli sínum í Sunday Times að nýtt verkefni sé í uppsiglingu en hann geti ekkert sagt að svo stöddu um hvernig það muni líta út.