Peterhansel sigraði í Dakarrallinu

http://www.fib.is/myndir/Peterhansel2007.jpg

Frakkinn Stephane Peterhansel á Mitsubishi Pajero Evo varð sigurvegari í 29. Dakarrallinu em lauk í gær í Dakar í Senegal. Í öðru sæti varð félagi hans í Mitsubishi og samlandi, Luc Alphand. Í þriðja sæti var svo einyrkinn, Frakkinn Jean Louis Schlesser á sínum heimasmíðaða afturhjóladrifna bíl.

Þetta varð þriðji sigur Peterhansels á fjórum árum og sjöunda árið í röð sem Mitsubishi bíll er í sigursætinu. Mitsubishi heldur því enn stöðu sinni sem sá bílaframleiðandi sem hefur verið ósigrandi undanfarin ár. Volkswagen ætlaði sér stóra hluti að þessu sinni, mætti til leiks með frábæra ökumenn eins og finnsku rallgoðsögnina Ari Vatanen, Katalóníubúann Carlos Sainz, Bandaríkjamanninn Mark Miller og fleiri, en allt kom fyrir ekki. Bílarnir reyndust einfaldlega ekki nógu traustir til að standast Mitsubishi snúning og biluðu æ ofan í æ. Carlos Sainz sem hélt forystu lengstum þegar bíll hans hékk í lagi endaði í því níunda. Sá VW bíll sem hæst náði var bíll Millers sem lenti í því fjórða.

Sigurvegari í mótorhjólaflokki varð Frakkinn Cyril Despres og landi hans David Casteau í öðru. Í því þriðja varð Bandaríkjamaðurinn Chris Blais. Allir hjóluðu þeir á KTM hjólum. Hollendingurinn Hans Stacey ásamt tveggja manna áhöfn sinni sigraði í trukkaflokki þeir óku á MAN.

Alls komust 132 mótorhjól, 109 bílar og 69 trukkar alla leið frá Lissabon í Portúgal til Dakar. Af stað lögðu frá Lissabon 244 mótorhjól, 176 bílar og 84 trukkar.