Peugeot 1007 er öruggastur

The image “http://www.fib.is/myndir/ClaesTingvall.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Dr. Claes Tingvall.
Euro NCAP í Evrópu lýsti því yfir nú fyrir stundu að Peugeot 1007 væri sá bíll sem flest stig hefur hlotið fyrir vernd fullorðinna í árekstrarprófunum stofnunarinnar frá upphafi. Peugeot bíllinn hlaut einnig viðurkenningu sem öruggasti bíllinn í flokki stærri smábíla. Þetta kom fram þegar niðurstöður í nýafstaðinni prófunarlotu hjá EuroNCAP voru kynntar á sameiginlegum blaðamannafundi EuroNCAP og sænsku vegamálastofnunarinnar í Stokkhólmi fyrir stundu.
Lexus GS300 hlaut fimm stjörnu einkunn sem öruggasti bíllinn fyrir fullorðna í flokki lúxusbíla og Mercedes Benz A í flokki minni fjölskyldubíla. Sjö bílar fengu fjögurra stjörnu einkunn fyrir vernd barnanna í bílnum og Honda FR-V og Suzuki Swift fengu þriggja stjörnu einkunn fyrir vernd fótgangandi.
Í bæði Peugeot 1007 og Mercedes A eru skynjarar í öllum sætum sem gefa frá sér viðvörunarhljóð ef farþegar láta undir höfuð leggjast að spenna sætisbeltin. Slíkir skynjarar eru einungis í framsætum margra bíla sem áður hafa verið árekstrarprófaðir – bíla eins og t.d. Renault Vel Satis og Renault Laguna. Þessi búnaður er talinn skipta miklu máli vegna þess hversu beltin draga stórlega úr hættu á meiðslum og dauða. Talið er að bílbeltin komi í veg fyrir að 7000 mannslíf glatist á hverju ári í Evrópu.
„Það er gleðilegt að sjá að yfir helmingur bílanna í þessari nýafstöðnu prófunarlotu fær fimm stjörnu einkunn fyrir vernd fullorðinna í bílnum og að þrír þeirra fá nú viðurkenninguna sem þeir bestu í sínum flokki,“ sagði dr. Claes Tingvall stjórnarformaður Euro NCAP. „Evrópskir bílakaupendur geta nú valið milli fleiri öruggra bíla en nokkru sinni fyrr. Það er líka gleðilegt og hvetjandi að sjá að fleiri bílar en nokkru sinni fyrr hljóta fjögurra stjörnu einkunn fyrir vernd barnanna í bílnum, sé réttur öryggisbúnaður notaður fyrir þau. Þetta er góð þróun en ég tek skýrt fram það verður að nota réttan og viðurkenndan öryggisbúnað fyrir börnin til að þau njóti þessa öryggis.
Claes Tingvall sagði ennfremur að margir bílaframleiðendur væru nú að huga myndarlega að vernd fótgangandi og annarra óvarinna vegfarenda en aðrir létu þá meira sitja á hakanum. „Ég vil hvetja alla bílaframleiðendur til að horfa sérstaklega til þeirra bíla sem hlotið hafa viðurkenninguna –Bestur í sínum flokki- til að taka þá sér til fyrirmyndar í þessum efnum,“ sagði Tingvall.
Hann sagði að allir bílarnir nema einn hefðu haft einhverskonar búnað til að minna fólk á að spenna bílbeltin. Það væri meir en áður og gleðileg breyting frá fyrri prófunarlotum.
Claes Tingvall gerði stöðugleikabúnað í bílum að umtalsefni og sagði að margar tegundir og gerðir bíla væru nú fáanlegar með búnaðinum. Stöðugleikabúnaður hjálpaði ökumanni við að hafa vald á bílnum og slysarannsóknir staðfestu að búnaðurinn myndi forða þúsundum frá dauða á hverju ári ef hann væri í öllum bílum í Evrópu. Ávinningurinn af þessum búnaði væri slíkur að EuroNCAP mælti sterklega með því við bílakaupendur að þeir veldu bíla bíla með honum en ekki án. Upplýsingar um stöðugleikabúnað er að finna á heimasíðu EuroNCAP, www.euroncap.com undir fyrirsögninni Steer clear of trouble sem útleggst -stýrðu án vandræða.
The image “http://www.fib.is/myndir/EuroNCAP28.6.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.