PGO Hemera í París

http://www.fib.is/myndir/PGOhemera.jpg
PGO Herera.

Nú stendur bílasýningin í París sem hæst. Parísarsýningin er haldin annað hvert ár á móti sýningunni í Frankfurt og eru Parísar- og Frankfurtsýningarnar stærstu og mestu bílasýningar Evrópu. Á Parísarsýningunum kappkosta frönsku og s. evrópsku bílaframleiðendurnir að sýna sitt nýjasta og besta en hinir þýsku og n.evrópsku tjalda sínu besta í Frankfurt.

En það eru ekki bara stóru framleiðendurnir sem sýna á stóru evrópsku bílasýningunum heldur einnig minni bílaframleiðendur sem og framleiðendur íhluta og tæknibúnaðar og hjá báðum gefur oft að líta nýjungar sem vísa veginn til framtíðar. 

Einn þeirra bílaframleiðenda sem sýna verk sín í París nú er franska fyrirtækið PGO. PGO hefur lengi handbyggt sportbíla sem mjög líkjast Porsche Speedster 356 sportbílunum frá því upp úr miðri síðustu öld. En í stað gömlu botnplötunnar frá Volkswagen bjöllunni er burðarvirkið röragrind (Spaceframe) og ytra byrði bílsins er úr trefjaplasti. Vél-, drif- og hjólabúnaður er ættað að mestu frá Subaru og bílarnir  með öllum nýjasta öryggisbúnaði sem og mengunarvarnabúnaði.

PGO hefur um árabil sýnt afurðir sínar á bílasýningunum í Frankfurt og París við ekki allt of mikla ánægju manna hjá Porsche sem reynt hafa í áranna rás að hindra PGO í því að byggja bíla sem svo mjög líkjast gömlu Porsche sportbílunum, en ekki haft erindi sem erfiði. En nú sýnir PGO reyndar alveg nýjan bíl sem er einskonar sjálfstætt framhald af Porsche eftirlíkingunum. Bíllinn hefur vakið talsverða athygli enda sérstæður eins og sjá má af myndunum.

Nýi bíllinn nefnist PGO Hemera. Hann er einskonar millistig hreins sportbíls og sportlegs (coupé) bíls. Hann er augljóslega byggður á sama burðarvirkinu og Speedster og Cevennes gerðirnar sem sjá má betur á heimasíðu PGO. Hemera bíllinn verður fáanlegur einhverntíman á fyrri helmingi komandi árs. Hann verður byggður í nýrri ISO 9001-vottaðri verksmiðju fyrirtækisins.

http://www.fib.is/myndir/PGOHemera2.jpg