Pirelli opnar dekkjaverksmiðju í Kína

The image “http://www.fib.is/myndir/Truckdekk.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Um miðjan síðasta mánuð opnaði ítalska hjólbarðafyrirtækið Pirelli nýja dekkjaverksmiðju. Verksmiðjan er í borginni Yanzhou í Shangdong-héraði og er hún reist í samvinnu við kínverska ríkisfyrirtækið RoadOne Tyre. Í verksmiðjunni starfa 750 manns og er framleiðslan sem svarar 540 þúsund dekk á ári. Á fullum afköstum er framleiðslugetan hins vegar 1,2 milljón dekk árlega. Dekkin verða einkum seld í Kína, Suð-Austur Asíu og Ástralíu. 
Forráðamenn Pirelli hafa þá trú að Kína verði innan fárra ára stærsta dekkjaframleiðsluland heims. Í dag framleiða Kínverjar um 9% þeirra dekkja sem framleidd eru í heiminum. Pirelli stefnir á að ná 3% markaðshlutdeild á kínverska markaðinum fyrir vörubíladekk fyrir árslok 2006. Pirelli hyggst einnig framleiða háhraðahjólbarða fyrir fólksbíla og mæta með því vaxandi eftirspurn eftir slíkum hjólbörðum í Kína. Að nýju verksmiðjunni í Kína meðtaldri rekur Pirelli 25 dekkjaverksmiðjur í 12 löndum. Fimm þeirra framleiða eingöngu radíal-vörubíladekk.