Pontiac 1926-2009

Sl. miðvikudag kl. 12.45 að staðartíma rann síðast Pontiac bíllinn af færibandinu í verksmiðjunni í Orion Township í Michigan. Engir fréttamenn fengu að vera nærstaddir og engin kveðjuathöfn fór fram. Þannig urðu þau hálfsnautleg endalok þessa bílmerkis sem hófst árið 1926.

 Síðasti Pontiakkinn var af gerðinni G6, hvítur að lit. Hann verður ekki settur á safn, heldur seldur á venjulegan hátt. Þar með lauk 83 ára sögu sem hófst þegar General Motors stofnaði til sjálfstæðrar framleiðslu á bílum undir þessu merki árið 1926.

Nafnið er hins vegar miklu eldra. Það er upphaflega nafn indíánahöfðingja sem leiddi uppreisn gegn breskum her á árunum 1763-1769. Nafnið Pontiac kom næst fyrir í nafni vagnasmiðjunnar Pontiac Spring & Wagon Works Company árið 1906. Sú vagnasmiðja var svo sameinuð Oakland Motor Company árið 1908. GM keypti svo árið eftir hið sameinaða fyrirtæki.  Þar voru svo framleiddir bílar undir nöfnum Oakland og síðar einnig Pontiac. Fljótlega kom í ljós að bílar með Pontiac-nafninu seldust miklu betur en Oakland. Því var Oakland nafnið lagt af og Pontiac í framhaldinu treyst í sessi sem sjálfstætt vörumerki innan GM samsteypunnar árið 1926 sem fyrr er sagt.

http://www.fib.is/myndir/PontiacGTO.jpg
Pontiac Tempest Le Mans GTO.

Blómaskeið Pontiac var á sjötta og sjöunda áratugi sl. aldar. Pontiac fékk talsvert sjálfstæði og kom fram með bíla sem urðu margir hverjir mjög vinsælir, ekki síst fyrir vandaðan frágang og öflugar vélar. Þeir sem þá leiddu Pontiac voru bílasnillingar eins og Semon Knudsen og John DeLorean. Þegar Pontiac Tempest Le Mans GTO kom fram árið 1964 var hann eitt mesta tryllitækið í Bandaríkjunum og með honum hófst kapphlaup bílaframleiðendanna um mesta og besta tryllitækið. Þetta var upphafið að tímabili „vöðvabílanna.“

Pontiac GTO var eiginlega hannaður og byggður þvert á bann GM-stjórnarinnar sem vildi enga bíla sem bendla mætti við hraðakstur og keppni. Stjórnendur Pontiac sveigðu fram hjá þessu banni með því að byggja bíl sem upp á amerísku var millistærðarbíll en með mjög aflmikilli 389 rúmtommu V8 vél sem var 325 - 348 hö.  GTO þótti þar með algert tryllitæki og raketta og varð umsvifalaust mjög vinsæll og eftirsóttur bíll.

 Pontiac kom svo fram með tryllitækið Firebird árið 1967 sem GM  tók upp á sína arma og byggði undir nafninu Chevrolet Camaro. Bíllinn var svar GM við Ford Mustang sem þá hafði slegið rækilega í gegn hjá Bandaríkjamönnum frá því hann kom fyrst fram árið 1964.

 Síðustu ár og áratugi hefur lítill munur verið á Pontiac- og öðrum GM bílum. En síðustu árin hafa Pontiac-menn reynt að skapa bílunum sérstöðu sem aflmeiri og sportlegri en þeir bílar sem GM almennt byggir. Hinn sportlegi Pontiac G8 er slíkur bíll – hann er lítilsháttar breytt útgáfa af hinum ástralska Holden Commodore.

 Í rauninni var framtíð Pontiac ráðin sl vor þegar stjórn GM tilkynnti áætlun sína um hið nýja GM. Þar yrðu einungis fjögur vörumerki í boði; Chevrolet, Buick, Cadillac og GMC. Saturn og Pontiac vörumerkin yrðu lögð niður og Hummer seldur. Kínverjar hafa þegar keypt Hummer og ljóst verður endanlega þann 1. des eftir stjórnarfund GM, hver örlög Saab í Svíþjóð verða.

Mörgum þykir endir Pontiac ansi snautlegur ekki síst í því ljósi að stórn GM hafði talsvert húllumhæ uppi þegar síðasti Oldsmobile bíllinn rann af færibandinu þann 24. apríl 2004. Þá var hóað saman hundruðum bílasmiða úr viðkomandi verksmiðju og þeir látnir rita nöfn sín á bílinn sem svo var ekið beint á safn.