Pontiac lagður niður

http://www.fib.is/myndir/PontiacGTO.jpg
Pontiac GTO 1967. Einn fyrsti „vöðvabíllinn“ (muscle car).

Nýi GM-forstjórinn, Fritz Henderson hefur nú lagt fram framtíðaráætlun GM sem var skilyrði þess að fá fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum í Washington. Eins og vænta mátti verður harkalega skorið niður í rekstrinum. Samsetningarverksmiðjum verður stórfækkað, dreifi- og sölukerfi einfölduð mjög og hið gamalkunna merki Pontiac verður einfaldlega lagt niður frá 2010.

Sú framtíðaráætlun sem fyrrverand forstjóri GM, Rick Wagoner kom með frá Detroit í einkaþotu (við lítinn fögnuð í Washington) og lagði fram þann 17. febrúar sl. hlaut ekki náð fyrir augum þingsins. Veittur var tveggja mánaða frestur til að gera nýja sem nú liggur fyrir. Í henni felst að um það bil þriðjungur núverandi starfsemi GM verður höggvinn af.

Strax á komandi sumri verður verksmiðjum GM í Bandaríkjunum og Kanada lokað í sjö vikur vegna sumarleyfa í stað fjögurra áður. Það þýðir að 190.000 færri bílar verða byggðir á árinu. Þá verður verksmiðjunum í Bandaríkjunum smám saman fækkað úr 47 í 37 í lok árs 2010. Áfram verður svo haldið að fækka verksmiðjunum niður í 31 árið 2012. Hvaða verksmiðjur það eru sem lagðar verða niður er ekki sagt  í fréttatilkynningu frá GM.

Þessar verksmiðjulokanir þýða að starfsfólki GM fækkar á þessu ári um 34 prósent, eða úr 61.000 manns í 40.000. Uppsagnirnar halda svo áfram þar til mannaflinn verður kominn niður í 38.000 árið 2011. Þetta þýðir að launakostnaður lækkar úr 7,6 milljörðum dollara í ca. 5 milljarða.

Bílasalan hjá GM hefur minnkað svo mjög að gerðir og bílmerki hjá GM eru orðin alltof mörg og ekkert svigrúm lengur til þróa hvert og eitt þeirra né setja kraft í markaðssetningu og sölu. Því verður að fækka bæði tegundum og gerðum.  Búið mun vera að ganga að mestu frá sölu á Hummer og leitað er nýs eiganda að Saturn tegundinni. Verið er að endurskipuleggja Saab í Svíþjóð og nýir eigendur munu vera í sjónmáli. Enginn vill hins vegar eignast Pontiac og dregið verður úr umsvifum Pontiac uns framleiðslu og sölu verður hætt og merkið lagt niður á næsta ári.

Þau vörumerki sem eftir verða eru Chevrolet, Buick, Cadillac og GMC. Undirgerðum þessara tegunda verður fækkað úr 48 í 34 og sölustöðum GM verður fækkað í áföngum úr 6.246 í 3.605 til ársloka 2010, eða um 42 prósent.

Til að lækka skuldir verður lánadrottnum GM boðið að breyta kröfum sínum í hlutafé í GM. Þannig er sömuleiðis ætlunin að breyta ríkislánum til GM í hlutabréf þannig að bandarískir skattgreiðendur og sömuleiðis eftirlaunasjóðir starfsmanna í bilaiðnaðinum verða stórir hluthafar í GM, gangi þetta eftir. Með þessu móti hyggst GM minnka skuldabyrði sína um 44 milljarða dollara.

En samhliða þessum mikla niðurskurði er ætlunin að horfa fram á veg og halda áfram og efla enn frekar fjárfestingar í rannsóknum og vöruþróun. Á þessu ári verða þannig settir 5,4 milljarða dollara í þróunarverkefni á þessu ári. Síðan á að auka þessar fjárfestingar í árlegum áföngum upp í 6,7 milljarða dollara árið 2014.