Porsche í dísilvélarnar

http://www.fib.is/myndir/Porsche_logo.jpg

Porsche hefur um margra ára skeið harðneitað öllum orðrómi um þátttöku í dísilvæðingunni og að til standi að fara að þróa dísilvélar. Með þessum afneitunum hefur gjarnan fylgt athugasemd um að dísilvélar séu lítt sportlegar. En vaxandi kröfur um eldsneytissparnað virðast hafa rekið þá Porsche-menn út í horn með dísilandúð sína því þeir hafa söðlað um. Strax á næsta ári er væntanleg dísilvél í Porsche bílum, fyrst í nýrri og minni kynslóð Porsche Cayenne og þar á eftir fleiri gerðum.  

Dísilvélin sem væntanleg er í Porsche Cayenne er að grunni til frá Audi en tæknisamvinna milli Porsche og Audi er hafin. Vél þessi er 3,6 lítra V6 og þegar allvel þekkt í bæði Audi og Volkswagenbílum. Þýskir bílafjölmiðlar reikna með því að hinn nýi Cayenne verði sýndur á bílasýningunni í Frankfurt í september 2009.