Porsche má kaupa Volkswagen

http://www.fib.is/myndir/Porsche_logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/VW-logo-.jpg

Það hefur lengi verið vitað að Porsche hefur viljað eignast meirihluta og fá þar með yfirráð yfir Volkswagen. Óvíst var lengi hvort yfirtakan yrði heimiluð af samkeppnisástæðum, en nú er það mál á hreinu – Porsche má eignast Volkswagen samkvæmt úrskurði samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins.

Porsche á nú rúm 30 prósent í Volkswagen. Stjórn Porsche samþykkti sl. vor það markmið að eignast meirihluta í VW en hafði allt frá árinu 2005 stefnt að því leynt og ljóst með því að kaupa upp hlutabréf í fyrirtækinu hvar sem til þeirra náðist. Stjórnarsamþykktin sl. vor kom því fáum á óvart.

Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins úrskurðuðu á síðasta ári að valdahlutföll í stjórn Volkswagen væru á skjön við lög. Völd starfsmanna í stjórn sem og völd fulltrúa sambandsríkisins Neðra-Saxlands væru of mikil í stjórninni út á einungis 20 prósenta eignarhlut.

Ýmsir velunnarar VW, hins gamalgróna fyrirtækis sem frá stríðslokum hefur lengstum verið í eigu almennings að stærstum hluta, óttast nú að VW vörumerkið muni láta undan síga fyrir Porsche. Það ætti þó að róa þá eitthvað að Wendelin Wiedeking forstjóri Porsche hefur sagt að hvernig sem allt veltist þá haldi Porsche áfram að vera Porsche og Volkswagen áfram að vera Volkswagen.