Porsche stefnir á yfirtöku VW

http://www.fib.is/myndir/Wiedeking.jpg
Wendelin Wiedeking forstjóri Porsche.


Porsche vill auka hlut sinn í Volkswagen og ná yfirráðum yfir fyrirtækinu. Wendelin Wiedeking forstjóri Porsche sagði þetta á ársfundi Porsche nýlega og sagði einnig að VW væri eina evrópska bílafyrirtækið sem einhvers má sín í samkeppninni við Toyota.
Wiedking sagði þó að yfirtaka Porsche á Volkswagen væri ekki alveg að bresta á heldur væri hún hugsanleg í kjölfar frekari hlutafjárkaupa Porsche í VW.

Á þessari stundu á Porsche 27,4 prósent í VW og vill ná eignarhlut sínum upp í 29,9 prósent hið snarasta. Þegar það markmið næst, sem gæti orðið innan skamms, þá fá þeir Wendelin Wiedeking forstjóri og Holger Härter fjármálastjóri Porsche sæti í stjórn Volkswagen. -Við ætlum ekki að verða óvirkir stjórnarmeðlimir heldur vinna þar hörðum höndum sagði Wiedking við þýska blaðamenn í vikunni.

Porsche er nú stærsti einstaki hluthafinn í Volkswagen. Sá næststærsti er þýska sambandsríkið Niedersachsen sem á 20,8 prósent.