Porsche stýrishús á Scania trukka?

Sænski vörubílaframleiðandinn Scania ætlar að hanna ný stýrishús fyrir vörubíla í samvinnu við Porsche Engineering. Þetta sjá bílablaðamenn sem enn eitt skrefið á leið Scania undir regnhlíf Volkswagen samsteypunnar.

Volkswagen í Þýskalandi er meirihlutaeigandi í Scania (71%) og á nú einnig ráðandi hlut í Porsche og hyggst eignast Porsche að fullu á næsta ári. Frá þessu er greint á fréttavef Reuters.

Þróunarstjóri Scania, Per Hallberg, sagði fyrr í vikunni frá hönnunarsamvinnu Scania og Porsche og að stýrishúsin sem um ræddi væru á stærstu flutningabílana. Þau skyldu þannig úr garði gerð að þau uppfylltu kröfur Scania um notagildi og fegurð en þau þyrftu líka að verða hagkvæm í framleiðslu.

Dirk Erat talsmaður Porsche sagði við sama tækifæri að þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem hönnunardeild Porsche kæmi að hönnunarverkefnum fyrir vörubílaframleiðendur. Þeir væru þegar í slíkri vinnu, m.a. í Austur Evrópu. Volkswagen hefur undanfarin ár unnið að því að tengja Scania betur við vörubílaframleiðandann MAN, sem Volkswagen á um 30 prósent í. Unnið er að því að samþætta ýmsa liði í starfsemi Scani og MAN. Þeir eru ekki síst framleiðsla á gírkössum og driföxlum (drifhásingum).