Portugal hefur náð ES-markmiðum 2015 um útblástur

Portugal er fyrsta ríkið í Evrópu sem tekist hefur að uppfylla eyðslu- og mengunarkröfur Evrópusambandsins til bíla sem nást eiga árið 2015. Kröfurnar eru þær að meðalútblástur nýrra bíla verði ekki meiri en 130 grömm á ekinn kílómetra frá og með árinu 2015.

Vart verður annað sagt en bílaframleiðendur vinni vel að þessu máli því að meðalútblástur nýrra bíla í Evrópu lækkar ár frá ári. Árið 2009 var hann 145,8 grömm á kílómetra árið 2009 en lækkaði niður í 140,9 grömm næsta ár á eftir; 2010.

Meðalútblástur nýrra bíla í Portúgal var einungis 127.4 grömm á kílómetra árið 2010. Næst á eftir komu Frakkland, Danmörk og Ítalía sem öll eru undir 133 grömmum.

Stórstígustu framfarirnar urðu í Svíþjóð þótt enn séu Svíar  (ásamt Þýskalandi) þeir sem kaupa mest mengandi bílana – bíla sem blása frá sér  yfir 150 grömmum á kílómetra. Af bílaframleiðendum urðu mestar framfarirnar hjá Volvo en 2010 árgerðirnar gefa frá sér 13,8 prósentum minna af CO2 en 2009 árgerðirnar. Af bílaframleiðendum er Toyota sá framleiðandi sem næstur er því að ná 2015 markmiðinu um 130 grömm á kílómetra að meðaltali.